Fordæmalaus fölnun Kóralrifsins mikla undan ströndum Ástralíu, sem staðið hefur samfleytt í mörg ár, hefur skemmt tvo þriðju hluta þessa mikla náttúruundurs. Þetta má sjá á loftmyndum af svæðinu.
Fölnun kóralanna, sem verður vegna hækkandi hita sjávar, nær yfir 1.500 kílómetra af rifunum að því er vísindamenn segja. Nýjustu skemmdirnar eru á miðju rifinu en á síðasta ári var fölnunin mest á norðurhluta þess.
Sérfræðingar óttast að þar sem þessir tveir atburðir hafa átt sér stað með stuttu millibili hafi kóralrifið litla möguleika á því að ná sér á strik að nýju.
Terry Hughes, prófessor við James Cook-háskóla segir að ríkisstjórnir landa heims verði að taka á loftslagsmálum til að koma í veg fyrir frekari skemmdir sem þessar.
„Frá árinu 1998 höfum við séð fjóra svona atburði og bilið á milli þeirra hefur verið breytilegt en við höfum aldrei séð þetta gerast svona ört,“ segir Hughes í samtali við BBC.
„Því fyrr sem við grípum til aðgerða gegn losun gróðurhúsalofttegunda og færum okkur frá því að nota jarðefnaeldsneyti, því betra.“