Ung börn sem leika sér í snjalltækjum virðast fá minni svefn en börn sem gera það ekki. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem birt er í vísindatímaritinu Scientific Reports. Samkvæmt henni fá börnin fimmtán mínútna styttri svefn fyrir hvern klukkutíma sem þau nota snjalltæki, hvort sem það eru símar eða tölvur.
Hins vegar komust vísindamennirnir að því að börn sem leika sér í snjalltækjum þorski fínhreyfingar hraðar en önnur börn.
Í frétt BBC um málið er haft eftir þeim sem að rannsókninni stóðu að foreldrar ættu að vera á varðbergi en „ekki missa svefn“ yfir niðurstöðunum.
Í fréttinni segir að sprenging hafi orðið í snjallsímanotkun síðustu misseri. Því eru slík tæki mun aðgengilegri börnum í dag en fyrir aðeins nokkrum árum síðan. Enn eru því rannsóknir á áhrifum tækjanna á þroska og líðan barna mjög takmarkaðar.
Rannsóknin var gerð við breskan háskóla og voru spurningalistar lagðir fyrir 715 foreldra barna undir þriggja ára aldri.
Foreldrarnir voru spurðir hvernig og hversu mikið börnin notuðu snjalltæki og einnig hvernig þau svæfu og hversu lengi.
Niðurstaðan var sú að 75% barna undir þriggja ára aldri nota snjalltæki daglega og að um 51% barna á aldrinum 6-11 mánaða nota þau. 92% barna á aldrinum 25-36 mánaða nota snjalltæki á hverjum degi.
Börn sem nota snjalltæki sofa minna á nóttunni en lengur að degi til.