Plast í sjó vanmetið um 80%

Einnota plastílát eru stórt vandamál og víða notuð. Hér gefur …
Einnota plastílát eru stórt vandamál og víða notuð. Hér gefur að líta vettvang veislu að aflokinni reiðkeppni í Liverpool á dögunum. Hvað verður um öll þessi plastglös? AFP

Plastúrgangur í hafinu hefur hingað til líklega verið vanmetinn um allt að 80% samkvæmt nýrri rannsókn ástralskra vísindamanna.

Jennifer Lavers, sem starfar við Stofnun í haf- og heimskautafræðum við háskólann í Tasmaníu, segir að gögn sem hingað til hafi verið stuðst við sýni aðeins „toppinn á ísjakanum“ af þeim plastúrgangi sem er að finna í náttúrunni.

Í rannsókninni var m.a. stuðst við magn plastúrgangs sem finnst á dæmigerðum hreinsunardögum á ströndum, sem þar til nú er sá mælikvarði sem notaður hefur verið til að meta umfangið, en að auki magn úrgangs sem fannst við ítarlegri kannanir á þessum sömu svæðum.

Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að þó að margir taki þátt í dæmigerðum hreinsunum á tilteknum ströndum, finnst aðeins um 20-25% af þeim plastúrgangi sem þar er. 

Einnota umbúðir utan af gosi eru orðnar álíka algenga sjón …
Einnota umbúðir utan af gosi eru orðnar álíka algenga sjón á víðavangi og grjót. AFP

Í ítarlegri umfjöllun Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið er haft eftir Lavers að í raun séu gögnin aðeins byggð á þeim úrgangi sem sést í fljótu bragði. „Sannleikurinn er hins vegar þessi: Við höfum ekki heildarmyndina, það eru stórar eyður í skilningi okkar á vandanum.“

Fréttamenn Sky fylgdu Lavers og teymi hennar í rannsóknarleiðangur um strendur Cocos Keeling-eyja í Indlandshafi sem tilheyra Ástralíu. Eyjaboginn er afskekktur og einangraður og þar búa aðeins um 600 manns.

En að ströndum eyjanna rekur fleiri tonn af plasti. Úrgangurinn kemur langt að; frá Sri Lanka, Maldív-eyjum, Taílandi og Kína. Um stórt vandamál er að ræða fyrir eyjaskeggja. 

„Við hreinsun ströndina einn daginn og svo er þetta allt komið aftur og þetta er ekki úrgangur sem við skiljum eftir okkur,“ hefur Sky eftir Aaron Bowman, sem starfar hjá stofnun sem ber ábyrgð á hreinsun stranda og losun úrgangs á eyjunum. „Þetta er risastórt vandamál. Við erum aðeins örsmá eyja úti á miðju hafi. Við ráðum hreinlega ekki við þetta sjálf.“

Plastpokar lenda oft í ruslinu eftir að hafa verið notaðir …
Plastpokar lenda oft í ruslinu eftir að hafa verið notaðir aðeins einu sinni. Sé þeim ekki fargað með réttum hætti enda þeir í hafinu. AFP

Eyjaklasinn er tilvalinn til rannsókna á umfangi plastúrgangs að sögn vísindamannanna. Eyjaskeggjar bera ekki ábyrgð á þessum úrgangi, hann er ekki frá þeim kominn, og því er hægt að leggja mat á umfang hans í sjónum almennt. Erfitt er að rannsaka með beinum hætti hversu mikið plast er að finna í hafinu sjálfu en með því að meta umfangið sem leggst að ströndum er hægt að draga ályktanir. 

Lavers segir að þar sem ljóst sé að magn plastúrgangs á ströndum hafi verið stórlega vanmetið megi draga þá ályktun að sama eigi við um hafdjúpin. 

Gögnum um plastúrganginn á Cocos Keeling-eyjum hefur verið safnað allt frá árinu 2004. Hundruð sjálfboðaliða hafa tekið þátt í verkefninu, tínt rusl og skráð það í gagnagrunn.

Út frá upplýsingum frá fleiri svæðum í Ástralíu er það mat vísindamanna að um tveir þriðju hlutar alls úrgangs við strendur heimsálfunnar séu úr plasti.

Í frétt Sky er tekið dæmi: Sjálfboðaliðar á Cocos Keeling-eyjum söfnuðu um 50 þúsund hlutum af um 3 kílómetra löngu strandsvæði. Ruslið var rúmlega tvö tönn að þyngd og um 80% af því var úr plasti.

Allt ruslið var flokkað og skráð, m.a. út frá framleiðanda, gerð og tegund. Ef strikamerki voru á hlutunum voru þau skráð í gagnagrunninn.

„Ef við ætlum ekki að gera neitt annað í þessu vandamáli en að hreinsa upp rusl þá verður það það eina sem við gerum nokkurn tímann,“ hefur Sky eftir Heidi Taylor, sem fer fyrir Tangaroa Blue, stofnun sem fæst við úrgang í hafinu. Stofnun hennar heldur utan um gagnagrunninn.

Hún segir að nú sé reynt að meta hvaðan ruslið kemur og hvers vegna það endar úti í náttúrunni en er ekki fargað. Hún segir mikilvægt að öðlast skilning á þessu ferli til að draga úr umfangi rusls í  hafinu.

Strendur eru oft fullar af plasti og hingað til hefur …
Strendur eru oft fullar af plasti og hingað til hefur magn þessa úrgangs verið stórlega vanmetið að mati ástralskra vísindamanna. AFP

Í gagnagrunninum eru ekki aðeins upplýsingar um rusl við strendur Ástralíu heldur gögn frá mörgum stöðum í heiminum. Lavers segir hins vegar að hingað til hafi stjórnvöld vanmetið umfangið stórlega, að því er hennar eigin rannsóknir sýna. Stjórnvöld hafi ekki fengið rétta mynd til að gera sýnar áætlanir og forvarnir.

Árið 2014 var það mat opinberrar vísindastofnunar í Ástralíu að finna mætti 124 milljarða plasthluta á ströndum við Ástralíu. Lavers telur að umfangið sé nær 600 milljörðum.

Umhverfisverndarsamtök vonast til þess að þessar nýju rannsóknarniðurstöður verði mikilvægt innlegg í umræðu um umhverfisvá sem þau telja mjög brýnt að bregðast hraðar við en gert hefur verið fram til þessa. „Ríkisstjórnir þurfa að fara að viðurkenna hversu stórt þetta vandamál er orðið,“ segir Taylor hjá Tangaroa Blue-stofnuninni. Hún segir engan hafa gert sér grein fyrir hversu slæmt ástandið sé. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert