Ef fram heldur sem horfir verða jöklar á Íslandi horfnir að öllu leyti eftir 150 til 200 ár, en þeir rýrna nú hraðar en heimildir eru fyrir í Íslandssögunni. Þetta segir Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Íslenskir jöklar þynnast um rúman metra á ári og munu þessar hröðu breytingar hafa mikil áhrif á byggð í landinu.
Á árunum 2008 til 2012 voru gerðar mælingar á jöklum á Íslandi til að útbúa af þeim nákvæm kort sem hægt yrði að nota til viðmiðunar á mælingum í framtíðinni. Um var að ræða svokallaða leysikortlagningu þar sem yfirborð jökla var mælt með leysimælingum úr flugvél. Það var Orkurannsóknarsjóður Landsvirkjunar sem styrkti verkefnið, en um er að ræða eitt stærsta verkefni sem sjóðurinn hefur styrkt. Verkefnið var unnið í alþjóðlegu samstarfi í tilefni af Alþjóðaheimskautaárinu 2009.
Tómas kynnti í gær mælingarnar á tíu ára afmælisfundi Orkurannsóknarsjóðs, en kortin hafa komið sér vel við þær mælingar sem nú eru í gangi á jöklunum. Þá nýtast leysikortin við rannsóknir á vatnsorku og almennar vatnafarsrannsóknir, við vega- og brúagerð, í sambandi við ferðir og björgunaraðgerðir á jöklum, við gerð fræðsluefnis fyrir ferðamenn og almenning og við margvíslegar náttúrufarsrannsóknir.
Hofsjökull hefur til að mynda þynnst um 100 metra á árunum 1986 til 2015, þar sem þynningin hefur verið mest. „Ef það hlýnar nokkurn veginn í takt við það sem þessar loftslagssviðsmyndir sem hafa verið settar saman fyrir ýmsa aðila sýna, benda líkanareikningar til þess að jöklarnir gætu horfið,“ segir Tómas í samtali við mbl.is Hraðinn hefur hins vegar verið töluvert meiri. „Hlýnunin síðan flestar þessar rannsóknir voru unnar hefur hins vegar reynst talsvert hraðari síðari ár en gert var ráð fyrir, bæði hér á landi og á norðurslóðum. Þessi þróun er því að verða hraðari en menn sáu fyrir.“
Að sögn Tómasar bráðna jöklarnir að meðtali svipað hratt, en ýmsir þættir þættir hafa þó áhrif á hraðann, líkt og þykkt jöklanna.
„Það fer aðeins eftir því hvað jöklarnir eru þykkir hve hröð þessi þróun verður. Snæfellsjökull þynnist til dæmis mjög hratt og hverfur væntanlega fyrr en flestir aðrir. Vatnajökull er þykkastur og mun því endast lengst. Í stórum dráttum eru jöklarnir að þynnast um rúmlega metra á ári, að meðaltali. Þetta eru mjög hraðar breytingar og þessar breytingar eru orðnar mun hraðari en á hlýja tímabilinu á fyrri hluta síðustu aldar. Hlýindin á fjórða áratugnum leiddu til hraðfara minnkunar jöklanna en nú erum við komin í tímabil þar sem breytingarnar eru enn hraðari,“ útskýrir Tómas, en ekki eru til fordæmi fyrir svo hröðum breytingum nema í jarðsögutímabilum í fjarlægri fortíð.
Breytingar á jöklum eru þær afleiðingar hlýnunar loftslags sem munu hafa hvað mest áhrif hér á landi. Ekki bara fyrir umhverfið heldur líka okkur mannfólkið. „Þessar breytingar hafa mjög margvíslegar afleiðingar fyrir byggð í landinu. Þær breyta vatnafari þannig að rennsli jökuláa breytist. Árstíðarsveifla í rennsli til virkjana breytist, leysingatímabilið stendur lengur og rennslið eykst, þannig að þetta breytir hönnunar- og rekstrarforsendum raforkuveranna okkar. Þá hefur þetta áhrif á aðstæður til að byggja vegi og brýr og á forsendur til að byggja mannvirki, önnur en virkjanir. Ár breyta farvegi sínum, en frægasta dæmið um það er Skeiðará. Fyrir framan jöklana myndast víða jökullón sem veldur breytingum á setflutningum í ám. Það er talið geta haft áhrif á lífríki bæði í ám og sjó,“ segir Tómas sem stendur nú að endurmælingum jöklanna, ásamt fleirum, með gervihnattamyndum.