Póst- og fjarskiptastofnun hefur sent frá sér tilkynningu vegna spilliforrits sem herjar nú á tölvukerfi í nokkrum löndum. Stofnunin segir forritið beita nýju afbrigði hugbúnaðar sem þekktur er undir nafninu Petya en umrædd lönd eru Úkraína, Rússland, Danmörk og Bretland.
„Spilliforritið er gagnagíslataka, það er gögn viðkomandi tölvu eru dulrituð og krafist er lausnargjalds svo afkóða megi gögnin. Vísbendingar eru um að þetta afbrigði noti sömu smitleið og WannaCry sem fréttir bárust af í síðasta mánuði, en Microsoft hefur þegar gefið út öryggisuppfærslu sem lokar þeirri smitleið,“ segir í tilkynningu Póst- og fjarskiptastofnunar.
Stofnunin mælir með því að afritataka sé trygg og regluleg og afritin helst geymd þannig að þau séu ekki tengd við tölvur eða net, að stýrikerfi og varnarbúnaður séu uppfærð með nýjustu öryggisuppfærslum frá framleiðendum og að ekki sé smellt á viðhengi eða hlekki sem koma í óumbeðnum tölvupósti.
Ef sýking finnst ber að tilkynna það til CERT-ÍS.
„Ef tölva reynist sýkt skal taka hana úr sambandi við netið strax, bæði netsnúru og WiFi. Annars er hætt við að hún sýki aðrar tölvur.
Mikilvægt er að tilkynna smit til Netöryggissveitarinnar CERT-ÍS. Vinsamlega sendið tilkynningar á netfangið cert@cert.is eða í faxnúmer 510-1509.
Í tilkynningunni komi fram hver varð fyrir árás, hvaða stýrikerfi er um að ræða, hvernig afleiðingarnar lýsa sér í stuttu máli og nafn, sími og tölvupóstur tengiliðar.
Vefsíða netöryggissveitarinnar er á www.cert.is . Þar er að finna tæknilegar upplýsingar sem tengjast árásinni.“