Öfgar í veðurfari geta kostað 152 þúsund Evrópubúa lífið á hverju ári um næstu aldamót ef ekkert verður gert til þess að halda aftur af loftslagsbreytingum að sögn vísindamanna. Rannsókn þeirra er birt í Lancet tímaritinu og nær meðal annars til Íslands.
Dauðsföllin eru margfalt fleiri en um þessar mundir segir í tímaritinu en samkvæmt greininni verður hægt að rekja 99% dauðfallanna til hitabylgna og verður Suður-Evrópa þar verst úti. Sérfræðingar segja niðurstöðuna mjög mikið áhyggjuefni en einhverjir segja að spáin geti verið ofmetin.
Ef ekkert verður að gert til þess að draga úr gróðurhúsaáhrifum og til að bæta stefnumörkun í því skyni að draga úr áhrifum öfgum í veðurfari má búast við því að dauðsföllum vegna öfga í veðri muni fjölga úr 3 þúsundum á ári (1981-2010) í 152 þúsund (2071-2100), að því er segir í skýrslunni.
Hörmungarnar munu hafa áhrif á líf tveggja af hverjum þremur íbúum Evrópu fyrir árið 21-- en við upphaf þessarar aldar höfðu öfgar í veðri áhrif á líf eins af hverjum 20. Fjöldi þeirra sem deyja í flóðum á eftir að margfaldast á yfirstandandi öld - úr sex fórnarlömbum á ári í 233 undir aldamót.
Samkvæmt skýrslunni verður mest hættan af hitabylgjum, kuldaköstum, skógareldum, þurrkum, flóð í ám og við strendur ríkja Evrópu og hvassviðri. Rannsóknin nær til allra ríkja Evrópusambandsins (28 talsins) sem og Íslands, Noregs og Sviss.