Hitabylgjur munu taka sinn toll

Hitabylgja er á Ítalíu. Stórfljótið Pó, sem venjulega er beljandi …
Hitabylgja er á Ítalíu. Stórfljótið Pó, sem venjulega er beljandi vatnsflaumur, er nú vatnslítið, m.a. hér við Piacenza á Norður-Ítalíu. AFP

Halldór Björnsson, sérfræðingur í loftslagsmálum á Veðurstofu Íslands, segir að ný spá vísindamanna um að öfgar í veðurfari, einkum miklar hitabylgjur, geti leitt til dauða allt að 150 þúsund Evrópubúa á ári um næstu aldamót, sé ekki galin sviðsmynd miðað við þær forsendur sem gefnar eru um þróun loftslagsbreytinga.

Veðurfarssveiflur, hitabylgjur, kuldaköst, flóð og stormar, hafa á undanförnum áratugum valdið fjölmörgum dauðsföllum í Evrópu.

Talið er að hitabylgjur einar hafi árlega valdið dauða nærri 3.000 manna í álfunni. Vísindamennirnir telja að hitabylgjur muni stóraukast og valda fimmtíufalt fleiri dauðsföllum um næstu aldamót en nú, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.

Tveir suðurkóreskir vísindamenn, Jae Young Lee og Ho Kim, segja í athugasemd við greinina í Lancet að áhrif veðurfarsöfganna á dauðsföll kunni að vera ofmetin. Benda þeir á að menn geti brugðist við hinum breyttu aðstæðum í veðurfari og nefna í því sambandi framfarir í læknisfræði og nýja tækni við loftkælingu íbúðarhúsa.

Fleiri hafa tekið í sama streng eftir að greinin birtist og bent á að til að fá raunsanna mynd sé ekki aðeins hægt að framreikna breytingar af þessu tagi án þess að huga að viðbrögðunum sem hljóti að verða.

Í síðustu viku birti tímaritið Science Advances grein þar sem því var spáð að vothiti gæti aukist svo í Suður-Asíu fyrir lok þessarar aldar að álfan yrði ekki byggileg. Enn önnur vond spá birtist í Environmental Research Letters þar sem sagði að aukinn styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu myndi á næstu áratugum valda gífurlegri skerðingu á magni próteins í ræktuðu korni eins og hrísgrjónum og hveiti. Þá var í gær sagt frá nýrri bandarískri skýrslu þar sem fram kom að loftslagsbreytingar væru þegar farnar að hafa mikil áhrif vestanhafs. Meðalhiti hefði hækkað óðfluga þar í landi frá árinu 1980 og undanfarnir áratugir hefðu verið þeir heitustu í landinu í 1.500 ár.

 Sveiflur magna ástandið

Halldór Björnsson sagði að um þessar mundir væru mestu hörmungar af völdum veðurs í Austur-Afríku þar sem þurrkar væru að fella þúsundir manna. Þurrkar gætu einnig aukið á vandamál sem fyrir væru í ýmsum löndum. Þótt þurrkar hefðu til að mynda ekki valdið borgarastyrjöldinni í Sýrlandi léki enginn vafi á því að þeir hefðu átt stóran þátt í að magna hið skelfilega ástand þar til hins verra. Veðurfarssveiflur gætu haft mikil áhrif á þjóðfélög sem væru í viðkvæmri stöðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert