Sá sjaldgæfi atburður verður í Bandaríkjunum á morgun að þar mun sjást almyrkvi á sólu. Almyrkvinn gengur þvert yfir Bandaríkin, frá Oregon á Vesturströndinni þar sem hann hefst klukkan 10:15 að staðartíma yfir til Suður-Karólínu þar sem honum lýkur um 90 mínútum síðar.
Almyrkvi sást síðast frá meginlandi Bandaríkjanna árið 1979 en þetta er í fyrsta sinn síðan 1918 að almyrkvi gengur þvert yfir Bandaríkin. Almyrkvinn mun sjást innan u.þ.b. 100 kílómetra breiðs beltis og búa um 12 milljónir manna innan svæðisins.
Fólksfjöldi beltisins tæplega tvöfaldast þó tímabundið á morgun en áætlað er að átta milljónir innlendra og erlendra ferðamanna leggi leið sína inn fyrir beltið. Þar á meðal nokkrir Íslendingar, og auðvitað er þar með í för Sævar Helgi Bragason, fyrrverandi formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Hann segir stefna í að metfjöldi muni berja almyrkvann augum, 20 milljónir manna.
„Þetta er það allra stórkostlegasta. Það er tilviljun að tunglið passar akkúrat fyrir sólu og varpar mjóum skugga til jarðar,“ segir Sævar. Þegar tunglið er fyrir sólinni má sjá gashjúp í kringum sólu sem myndar tignarlegan ljóshjúp í kringum sólu, segir Sævar.
Í mars 2015 varð á Íslandi 98 prósenta deildarmyrkvi, en í bænum Casper í Wyoming, þar sem Sævar kemur til með að horfa á almyrkvann verður hann 100 prósent líkt og annars staðar innan beltisins í Bandaríkjunum þar sem almyrkvinn sést.
Myrkvinn vakti mikla athygli á Íslandi þegar hann varð hér á landi og var mikið um hann fjallað í íslenskum fjölmiðlum, ekki síst vegna frumkvæðis Sævars að gefa öllum grunnskólabörnum landsins sólmyrkvagleraugu. Sævar segir mikinn áhuga vera á myrkvanum í Bandaríkjunum.
„Þetta er í öllum fréttatímum og það er mikið um þetta fjallað, bæði á Veðurrásinni og öllum fréttastöðvum. Hvar hægt sé að fá gleraugu og hvernig sé best að sjá þetta,“ tekur Sævar sem dæmi. Spáin er mjög góð víðast hvar í Bandaríkjunum í morgun og þar með talið þar sem Sævar verður.
Hann segir að allir ættu að setja á kistulistann (e. Bucket List) að sjá almyrkva með berum augum. „Ég hef séð einn almyrkva áður en sjö deildarmyrkva,“ segir Sævar en almyrkvann sá hann í Indónesíu í fyrra. „Maður verður háður þessu enda óhemjuglæsilegt. Maður verður að sjá þann næsta, þessar örfáu mínútur eru ekki nóg þannig maður eltir þetta heimshorna á milli,“ segir hann en sólmyrkvinn á morgun mun vara í rúmar tvær mínútur.
Sævar segir að öll hótelherbergi á svæðinu séu stútfull og að þau fáu herbergi sem laus eru séu að seljast á mörg hundruð þúsund krónur nóttin. Næsti almyrkvi verður árið 2019 og ætlar Sævar til Síle að sjá hann og til Argentínu 2020. Árið 2021 verður hann á Suðurheimskautinu en 2024 í Mexíkó. Árið 2026 verður síðan almyrkvi á Íslandi, sá fyrsti síðan 1466.