Þegar Bandaríkin urðu myrkvuð

AFP

Bandaríska þjóðin fylgdist agndofa með almyrkva á sólu í gær en al­myrkvinn gekk þvert yfir Banda­rík­in, frá Or­egon á Vest­ur­strönd­inni yfir til Suður-Karólínu. Sæv­ar Helgi Braga­son, fyrrverandi formaður Stjörnu­skoðun­ar­fé­lags Seltjarn­ar­ness, er einn þeirra sem fylgdist með í Wyom­ing.

Sævar segir að þetta hafi verið stórkostleg upplifun og þrátt fyrir að deildarmyrkvi sé stórkostlegur þá sé almyrkvi svo miklu meira. 

AFP

Hann segir að mjög margir hafi fylgst með almyrkvanum í bæn­um Ca­sper í Wyom­ing en þar var almyrkvinn 100 pró­sent líkt og ann­ars staðar inn­an belt­is­ins í Banda­ríkj­un­um þar sem al­myrkvinn sást. Ekkert símasamband var á svæðinu í talsverðan tíma í gær þar sem gríðarlegur fjöldi fólks átti leið um og var álagið einfaldlega of mikið.

„Þetta var frábær upplifun í alla staði. Það voru mjög margir að fylgjast hér með og upplifunin sterk. Mjög gott veður og allt eins og þetta á að vera,“ segir Sævar en um milljón manns lagði leið sína til Casper í gær í þeim tilgangi að fylgjast með almyrkvanum.

Sævar Helgi Bragason er í bænum Casper í Wyoming-ríki þar …
Sævar Helgi Bragason er í bænum Casper í Wyoming-ríki þar sem hann fylgdist með almyrkvanum. Samsett mynd

Al­myrkvi sást síðast frá meg­in­landi Banda­ríkj­anna árið 1979 en þetta er í fyrsta sinn síðan 1918 að al­myrkvi geng­ur þvert yfir Banda­rík­in. Al­myrkvinn sást inn­an u.þ.b. 100 kíló­metra breiðs belt­is og búa um 12 millj­ón­ir manna inn­an svæðis­ins.

Eins og fram kom á mbl.is um helgina varð í mars 2015 98 pró­senta deild­ar­myrkvi á Íslandi. Almyrkvi hefur ekki sést á Íslandi síðan 1954 og í Reykjavík síðan árið 1466. Næsti almyrkvi verður hér árið 2026.

Sævar segir að almyrkvi sé svo miklu magnaðra fyrirbæri en deildarmyrkvi og það útskýri hvers vegna hann hafi ferðast yfir hálfan hnöttinn til þess að fylgjast með en hann fylgdist með almyrkva í Indónesíu í fyrra. „Þetta er miklu magnaðra en deildarmyrkvar þrátt fyrir að þeir geti líka verið mjög fallegir,“ segir Sævar í samtali við mbl.is í morgun.

AFP

Almyrkvi á sólu er einhver tilkomumesta sjón sem fyrir augu getur borið í náttúrunnar ríki. Mörgum gefst þó aldrei tækifæri til að sjá þetta fyrirbæri vegna þess hve sjaldgæft það er, segir Þorsteinn Sæmundsson í Almanaki Háskólans.

Þótt skuggi tunglsins falli á jörðina um það bil 80 sinnum á hverri öld, er þvermál skuggans svo lítið að myrkva gætir ekki nema á mjög takmörkuðu svæði hverju sinni, segir Þorsteinn. Á Íslandi sást almyrkvi síðast árið 1954.

„Enginn þálifandi maður hafði áður orðið vitni að almyrkva hér á landi, því að meira en öld var liðin frá því að slíkur atburður hafði gerst. Hins vegar er ekki útilokað að einhverjir þeirra sem horfðu á sólmyrkvann 1954 muni lifa það að sjá næsta almyrkva á Íslandi, sem vænta má árið 2026,“ segir Þorsteinn. Síðan verður löng bið því þarnæsti almyrkvi á sólu verður 14. júní 2151.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert