Vísbendingar eru um að öflugir sólarvindar, sem valda því að norðurljósin myndast á himni, hafi átt þátt í því að 29 búrhvalir strönduðu í Norðursjó í fyrra.
Í nýrri rannsókn er bent á að sveiflur á jarðsegulmagni hafi truflað hæfni hvalanna til að rata og því þeir synt inn á grunnsævi og strandað. Hvalirnir strönduðu, komust hvergi og drápust.
Rannsóknin var gefin út nýverið í vísindatímaritinu International Journal of Astrobiology.
Vísindamenn undruðust að við krufningu á hræjum hvalanna kom í ljós að flestir þeirra voru við góða heilsu, ungir og vel í holdum. Strandið vakti mikla athygli á sínum tíma og margar kenningar voru á sveimi um ástæður þess. Rætt var um að mögulega hafi verið eitrað fyrir dýrin eða að loftslagsbreytingum væri um að kenna.
Búrhvalir halda til í djúpum og hlýjum eða mildum sjó víðsvegar á jörðinni. Margir hópar þeirra halda til við Azor-eyjar og enn aðrir í austurhluta Atlantshafsins.
Er þeir eru í kringum 10-15 ára gamlir halda ung karldýr norður að heimskautasvæðinu í leit að æti í köldum sjónum. Á þessu ferðalagi fara þeir upp með vesturströnd Bretlands og Írlands og inn í Norðursjó. Þeir synda svo yfirleitt sömu leið til baka.
En á innan við mánuði snemma árs 2016 fundust búrhvalir strandaðir við Þýskaland, Holland, Bretland og Frakkland.
Í frétt BBC um málið segir að nú telji vísindamenn skýringuna á þessu dularfulla máli loks ljósa. Þeir telja að hvalirnir noti jarðsegulsvið jarðar til að rata. Segulsviðið er hins vegar ekki stöðugt, það er sterkt á sumum svæðum en veikara á öðrum. Vísindamenn telja að dýrin læri að meta þennan breytileika og nota hann til að rata, rétt eins og mannfólk lærir að lesa landakort.
Því er það mat þeirra að öflugir sólarvindar hafi truflað jarðsegulsviðið og orðið til þess að hvalirnir villtust.
Sólarvindar senda frá sér rafmagnaðar agnir og geislun sem mynda svo norðurljósin. Hins vegar er vitað að mjög öflugir sólarvindar geta valdið skemmdum á gervitunglum og fjarskiptabúnaði.
Þegar eru taldar vísbendingar til staðar um að þessi virkni sólarinnar geti haft áhrif á ratvísi fugla og býflugna.