„Trump segir að Facebook hafi eitthvað á móti honum,“ skrifar Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook. Hann svarar Donald Trump Bandaríkjaforseta sem sagði í fyrr í dag að Facebook hefði alltaf haft horn í síðu hans.
Facebook was always anti-Trump.The Networks were always anti-Trump hence,Fake News, @nytimes(apologized) & @WaPo were anti-Trump. Collusion?
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 27, 2017
Zuckerberg sagði að Facebook væri staður þar sem allar raddir og hugmyndir ættu að heyrast. Þess vegna segðu margir hópar að Facebook hefði eitthvað á móti þeim.
Varðandi forsetakosningarnar vestanhafs síðasta haust sagði Zuckerberg að helstu áhrif Facebook hefðu verið á aðra leið en margir halda fram:
„Fleiri en nokkru sinni fyrr gátu látið í sér heyra. Fjöldi skoðanaskipta og umræðna fór fram, sem hefðu kannski aldrei farið fram utan Facebook,“ skrifar Zuckerberg og bætir við að þetta hafi verið fyrstu kosningarnar í Bandaríkjunum þar sem frambjóðendur hafi helst tjáð sig á netinu.
Frambjóðendurnir hafi haft sína eigin Facebook-síðu þar sem þeir voru í samskiptum við tugi milljóna manna daglega.
„Framboðin eyddu hundruðum milljóna í auglýsingar á netinu til að koma skilaboðum sínum enn frekar áleiðis,“ skrifar Zuckerberg og bendir á að Facebook hafi með átaki hvatt tæplega tvær milljónir manna til að skrá sig og kjósa.
Eftir kosningarnar sagði Zuckerberg að það væri „bilað“ að segja að Facebook hafi með einhverju móti breytt niðurstöðu kosninganna. Hann segist ekki hafa vandað orðavalið nógu vel en umræðuefnið sé mikilvægt.
„Okkar gögn hafa hins vegar alltaf sýnt að okkar áhrif skiptu mun meira máli í kosningabaráttunni,“ skrifaði Zuckerberg og hét því að fyrirtækið myndi áfram byggja upp samfélag fyrir alla.