Um fjórðungur íslenskra unglinga hefur einhvern tímann hugleitt sjálfsvíg. Sjálfsvígshætta er mun meiri meðal unglinga sem leggja aðra í einelti. Þessi tengsl eru bæði stigvaxandi og sterk þannig að því oftar sem einstaklingar leggja aðra í einelti því oftar hafa þeir hugleitt sjálfvíg eða gert tilraun til slíks. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Ársæls Arnarsonar, prófessors við menntavísindasvið Háskóla Íslands, á sjálfsvígshættu ungra gerenda eineltis á Íslandi og birtist nýverið í tímaritinu Glæður, fagtímariti íslenskra sérkennara.
Fyrri rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar sem hafa orðið fyrir einelti eru í mun meiri sjálfsvígshættu en aðrir. Fram að þessu hafa gerendur í eineltismálum ekki mikið verið rannsakaðir með tilliti til þessarar hættu. Í rannsókninni voru skoðuð svör 3.857 nemenda í 10. bekk skólaárið 2009-2010. Þeir voru spurðir hvort þeir hefðu hugsað um eða gert tilraun til sjálfsvígs.
„Þetta kom mér á óvart. Það er greinlega mjög skýrt og stigvaxandi samband á milli þess að leggja aðra í einelti og að hafa þessar sjálfsvígshugsanir og hafa gert þessar tilraunir,“ segir Ársæll. Hann segir engu að síður óþægilegt að horfa á þessar tölur, en niðurstaða þessarar rannsóknar er ekki ósvipuð sambærilegum erlendum rannsóknum.
Í svörum nemenda í 10. bekk kom í ljós að 87% þeirra sögðust aldrei hafa lagt annan nemanda í einelti á síðastliðnum mánuði. Um 10% höfðu gert það 1-2. Rétt rúmlega 3% nemenda í 10. bekk á Íslandi flokkuðust sem gerendur og lögðu aðra í einelti 2-3 sinnum á mánuði eða oftar.
Rúmlega fjórðungur nemenda í 10. bekk hafði hugleitt sjálfsvíg á einu ári. Flestir sögðust hafa gert það einu sinni og um 5% nemenda hafði hugsað um þetta fimm sinnum eða oftar. Rúmlega 7% nemenda sagðist hafa gert tilraun til sjálfsvígs á síðasta ári, helmingur hafði gert eina tilraun en hinir fleiri. Tæplega 1% þeirra sem aldrei hafa lagt í einelti sagðist hafa reynt sjálfsvíg samanborið við 47% þeirra sem lögðu oftast í einelti.
Sá hópur sem var bæði lagður í einelti og lagði aðra í einelti skar sig frá öllum öðrum hvað varðar tíðar sjálfsvígshugsanir. Helmingur nemenda sem voru bæði þolendur og gerendur höfðu reynt að taka eigið líf fimm sinnum eða oftar á einu ári samanborið við 0,5% þeirra sem tengdust aldrei einelti. Sömuleiðis sást talsvert meiri áhætta hjá þeim hópum sem sögðust annað hvort vera bara þolendur eða gerendur.
„Við þurfum að höfða meira til foreldra og sérstaklega foreldra gerenda. Þetta eru ekki góð merki og er ekki gott fyrir framtíðarhorfur barnsins þíns ef það er farið að beita þessum aðferðum á þessum aldri. Það eru allar líkur sem benda til þess að þetta vaxi ekki af fólki. Þeir sem beita kúgun og ofbeldi á unglingsaldri eru mjög líklegir til að gera það seinna á ævinni og þá er það nánasta fjölskylda sem verður fyrir þessu,“ segir Ársæll.
Hann bendir á að flestir foreldrar óttist að barnið sitt verði þolandi í eineltis sem eru skiljanleg viðbrögð. „Það er líka kvíðvænlegt að það sé gerandi. Það er erfitt fyrir foreldra að viðurkenna það og mjög erfitt fyrir foreldra að sjá barnið sitt í því ljósi. Það er ekkert óeðlilegt að foreldri fari í ákveðna afneitun ef það fær þau skilaboð að barnið þeirra leggi aðra í einelti,“ segir Ársæll.
Þegar foreldrar eru í þessari stöðu er mikilvægt að átta sig á stöðunni eins og hún er. Þegar fólk hefur náð þeim áfanga er hægt að vinna markvisst með gerandanum og ótal leiðir og úrræði eru í boði.
Í þessu samhengi bendir Ársæll á að það sé gjarnan ákall um að sérfræðingar séu kallaðir til í eineltismálum. Þeir eru auðvitað góðir og oft og tíðum nauðsynlegir. „Hins vegar liggur boltinn hjá foreldrum og ábyrgðin er fyrst og fremst þeirra í að ala börnin sín ekki upp í óþverraskap,“ segir Ársæll.
Á síðustu árum hefur dregið mikið úr einelti hér á landi og líðan íslenskra nemenda hefur komið mjög vel út miðað við önnur lönd. „Það hefur verið unnið þrekvirki á Íslandi í eineltismálum. Það er hlutfallslega lítill hluti nemenda sem lendir í þessu hér en það breytir auðvitað engu fyrir þann hóp sem verður samt sem áður fyrir einelti,“ segir Ársæll.
Þrátt fyrir að við höfum náð góðum árangri þökk sé kröftugum viðbrögðum íslenska skólakerfisins gegn einelti þá eigum við enn langt í land og þurfum að taka þetta föstum tökum. Fram að þessu hafa viðbrögðin fyrst og fremst snúið mjög að þolandanum.
Í starfi sínu með starfsfólki innan grunnskólanna segir Ársæll að enn fyrirfinnist gamlar leifar af þeim hugsunarhætti að sumir krakkar sem skera sig úr bjóði upp á eineltið.
„Það er svolítið sami andi í þessari umræðu um einelti og var um kynferðislegt ofbeldi fyrir nokkrum árum. Það er eins og að það þurfi Druslugöngu til að varpa ábyrgðinni yfir á gerandann. Það er sömu frasarnir notaðir af fólki í uppeldisstéttunum sem segja að sumir krakkar kalli á þetta. Þetta eru nákvæmlega sömu frasarnir og voru notaðir um kynferðislegt ofbeldi að einhver einstaklingur bjóði upp á að láta brjóta á sér því hann er svona eða hinsegin. Þetta er bara vegna þess að við erum orðin vön þessu. Við fórum öll í gegnum skóla og urðum vitni að þessu eða urðum fyrir þessu. Við sjáum ekki sjálf hvað þetta er óeðlilegt. Það er ekkert til sem heitir eðlilegt ofbeldi,“ segir Ársæll.
Hann tekur fram að fagleg vinna gegn einelti sé að finna í flest öllum skólum. Hins vegar þurfi foreldrar alltaf að axla ábyrgð á uppeldi barna sinna og þora að líta í eigin barm en benda í aðrar áttir.