Offita barna og unglinga hefur aukist gríðarlega í heiminum undanfarna fjóra áratugi og eru 124 milljónir drengja og stúlkna í heiminum of feit. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem er fjallað um í Lancet í dag.
Rannsóknin er sú stærsta af þessari gerð hingað til og er þýðið ungmenni í yfir 200 ríkjum heims. BBC segir að í Bretlandi sé eitt af hverjum tíu börnum á aldrinum fimm til 19 ára að berjast við offitu. Miðað við kort sem birt eru á BBC eru íslenskir drengir í hópi feitustu barna heims en ekki stúlkur.
Börn sem glíma við offitu eru líklegri til þess að vera of feit þegar þau verða fullorðin. Þetta eykur líkur á alvarlegum heilsufarsvanda þeirra í framtíðinni. Kostnaður vegna sjúkdóma sem fylgja offitu eykst ár frá ári í heiminum og er talið að hann muni nema 920 milljörðum punda á ári frá árinu 2025.
Þrátt fyrir að hlutfall of feitra barna virðist vera að ná jafnvægi í mörgum vel stæðum ríkjum Evrópu hækkar hlutfallið víða annars staðar í heiminum, að sögn Majid Ezzati sem stýrði rannsókninni.
Rannsakendur telja að mikið úrval og tilboð á ódýrum fituríkum mat sé ein helsta ástæða þessarar þróunar. Fjölgun feitra barna er hlutfallslega mest í Austur-Asíu. Ríki eins og Kína og Indland sjá nú þróun í átt sem aldrei hefur sést áður. Hvergi í heiminum eru jafnmörg börn of feit og í Pólýnesíu og Míkrónesíu.
Að sögn þeirra sem unnu að rannsókninni er að verða algengara að börn séu of feit en of létt. Árið 2016 voru 192 milljónir ungmenna of léttar sem er umtalsvert hærri tala en þeirra sem eru of feit en allt bendir til þess að þróunin sé í hina áttina.
Alls voru 213 milljónir stúlkna og drengja í heiminum í yfirvigt en samt ekki í flokki þeirra sem glíma við offitu. „Þetta er gríðarlega mikið vandamál sem mun bara halda áfram að versna,“ segir Harry Rutter, sem einnig kom að rannsókninni. „Jafnvel of létt fólk er þyngra í dag en það var fyrir tíu árum,“ bætir hann við.
Dr. Fiona Bull sem starfar hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hvetur til harðra aðgerða svo hægt verði að draga úr magni lélegrar fæðu og fá fleiri ungmenni til þess að hreyfa sig. Aðeins rúmlega 20 ríki heims hafa komið á svokölluðum sykurskatti. Ísland er eitt þeirra ríkja sem kom á slíkum skatti en hann var afnuminn fyrir tveimur árum.