Halldór Björnsson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði að loftslagssagan væri saga skrykkjóttar kólnunar með hlýjum köflum inn á milli. Síðustu 200 ár hefði verið skrykkjótt hlýnun með köldum köflum hér á landi.
Halldór fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland á umhverfisþingi sem haldið er í Hörpu í dag. Þingið er haldið samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga og að þessu sinni verða loftslagsmál meginefni þingsins.
Halldór sagði erindi sitt unnið upp úr skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem væntanleg væri fyrir árslok.
Hann tók dæmi um að hitastig færi hækkandi hér á landi og nefndi Stykkishólm í því samhengi. Þar hefur hitastig farið hækkandi frá árinu 1979 en í um tvo áratugi þar á undan var kuldaskeið, og m.a. hafís fyrir norðurlandi á síðari hluta 7. áratugar síðustu aldar. „2016 er hlýjasta árið í þessari 220 ára mæliröð, sem verður að teljast nokkuð merkilegt,“ sagði Halldór.
Hann sagði að hlýnun síðustu áratuga sæist augljóslega á hopi jökla og því fylgdu meðal annars breytingar á farvegum jökuláa. Halldór tók dæmi af Breiðamerkurjökli en árið 1890 náði hann alveg að sjónum og yfir landið þar sem jörðin Fell er.
„Í lok 19. aldar þegar jörðin Fell var seld fyrir kýrverð náði jökullinn niður að sjó. Jörðin var seld fyrir meira en það um daginn,“ sagði Halldór og uppskar hlátur viðstaddra en ríkið neytti forkaupsréttar þegar jörðin var seld á uppboði fyrir um 1500 milljónir og er nú hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.
Hlýnun hefði einnig haft áhrif á smíði brúa en gamla brúin yfir Skeiðarársand hefði á endanum verið brú yfir lítið vatn, vegna breytingar á árfarvegi.
„Hlýnun jarðar er óumdeilanleg og benda margar athuganir til breytinga frá því um miðbik síðustu aldar og eru fordæmalausar þegar litið er til síðustu áratuga eða árþúsunda. Hnattræn hlýnun síðustu áratuga er að mestu leiti af mannavöldum,“ sagði Halldór.
Hann sagði að samkvæmt tölum loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) muni sjór halda áfram að súrna og hitastig hækka með svipaðri losun gróðurhúsalofttegunda. Afleiðingar af því verði hugsanlega mjög víðtækar.
Bein útsending frá umhverfisþinginu: