Veruleg ógn steðjar nú að Bajkalvatni í Síberíu og hafa stjórnvöld í Rússlandi m.a. bannað veiðar á fisktegund sem hefur löngum verið ein meginuppstaðan í fæðu íbúa á svæðinu. Bajkalvatn er dýpsta vatn heims og það stærsta ef horft er til rúmmáls. Þá er það heimsminjaskrá UNESCO vegna gildis síns í þágu þróunarfræða en í og við vatnið er að finna 3.600 dýra- og plöntutegundir.
Síðustu ár hefur vatnið, sem dregur til sín fjölda ferðamanna, átt undir högg að sækja af ýmsum orsökum, sem vísindamenn geta ekki skýrt að fullu. Þar má m.a. nefna hvarf ómúlans (l. Coregonus migratorius), hraða útbreiðslu og vöxt rotinna þörunga og dauða svamptegunda á 32 þúsund ferkílómetra svæði.
Síðustu mánaðamót tók gildi bann rússneskra stjórnvalda gegn atvinnuveiðum á ómúla; laxategund sem aðeins finnst í Bajkalvatni. Fiskveiðistofnun landsins telur mikla ógn steðja að tegundinni og óttast óafturkræfa fækkun en stærð stofnsins telur 10 tonn í dag, samanborið við 25 tonn fyrir 15 árum.
Líffræðingurinn Anatoly Mamontov, sem sérhæfir sig í fiskistofnum, segir að fækkunina megi líklega rekja til óviðráðanlegs veiðiþjófnaðar en segir loftslagsþróunina einnig eiga sinn þátt. „Bajkalstofnarnir eru háðir loftslaginu,“ hefur AFP eftir Mamontov. „Nú er þurrkur, ár grynnka og það er minna af næringarefnum. Yfirborð Bajkalvatns hitnar og ómúlinn dafnar ekki í hlýju vatni.“
UNESCO, menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst yfir áhyggjum af því mikla álagi sem vistkerfi Bajkalvatns virðist vera undir og segir minnkun fiskistofna aðeins eina birtingarmynd vandans. Ómúlinn, sem borðaður er salataður eða reyktur, hefur um áratugaskeið verið aðaluppistaðan í matarræði á svæðinu, þar sem enginn landbúnaður er til staðar.
Önnur ógn sem steðjar að vistkerfinu er gríðarlega hröð útbreiðsla þörunga sem voru áður óþekktir í og við vatnið. Í dag liggur þykkt lag af rotnandi grænþörungum af tegundinni Spyrogyra á söndugum ströndum Bajkalvatns, sem sumir vísindamenn segja vísbendingu um að vatnið geti ekki lengur tekið við úrgangi án þess að það hafi alvarlegar afleiðingar í för með sér.
„Ég er 150 prósent viss um að ástæðan er frárennslisvatn,“ segir Oleg Timoshkin, líffræðingur við Limnological-stofnunina í Irkutsk. Vatnið komi frá bæjum þar sem engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að hreinsa frárennslið.
Fyrir fimmtán árum bjuggu sumir íbúar bæjanna við vatnið við þær aðstæður að hafa rafmagn tvær klukkustundir á sólahring. Bætt aðgengi að raforku hefur hins vegar gert það að verkum, að sögn Oleg, að „hver einasta babushka leigir út herbergi og á þvottavél.“
Þarna er engu logið; í dag hafa fjölmargir íbúar, sem áður lifðu á fiskveiðum, lífsviðurværi sitt af ferðamannaðiðnaðinum sem skapast hefur umhverfis vatnið. Margir verja tíma við Bajkalvatn á ferðalögum sínum með Síberíuhraðlestinni og á síðustu árum hefur ferðamönnum frá Kína fjölgað til muna.
Rússar eru ekki síður hrifnir; vegna útsýnisins, gönguleiðanna umhverfis vatnið og tjaldsvæðanna á svæðinu.
Sjálfur hefur Timoshkin ferðast meðfram Bajkalvatni til að rannsaka útbreiðslu grænþörunganna. Hann segir að á þremur stöðum nærri byggðum svæðum hafi vatnsbotninn gjörbreyst og lindýr og krabbadýr sem þrífast best í súrefnisríku vatni vikið fyrir þörungagróðrinum.
Nærri bænum Listvyanka, vinsælum ferðamannastað ekki fjarri Irkutsk, „var fyrir fimmtán árum að finna heilu svampskógana í vatninu, nú eru þeir allir dauðir,“ segir Timoshkin. Á síðasta ári rannsakaði hann 170 tegundir svampa víðsvegar um vatnið og „aðeins 11 prósent virtust heilbrigðir,“ segir hann. „Þegar þú tekur dauðan svamp upp á yfirborði lyktar hann eins og lík.“
Ef fólk hættir ekki að láta mengað vatn renna út í Bajkalvatn mun það valda verulegum breytingum við vatnið, að sögn Timoshkin. Hann hefur hvatt til þess að efni sem innihalda fosföt verði bönnuð við vatnið og að á svæðinu verði reistar bestu skolphreinsistöðvar Rússlands.
Hugmyndir hans kunna að njóta stuðnings meðal ráðamanna en í ágúst sl. kvartaði Vladimir Pútín Rússlandsforseti yfir mikilli mengun þegar hann heimsótti Bajkalvatn og sagði verndun þess á forgangslista stjórnvalda.
Lög voru sett árið 1999 í nákvæmlega þeim tilgangi og þá hafa stjórnvöld lagt til 385 milljónir evra í átak til að hreinsa vatnið en það hófst árið 2012 og miðar m.a. að því að reisa skolphreinsistöðvar.
Sérfræðingar segja stórum hluta peningana hins vegar hafa verið sóað. Í einum bæ, Babushkin, var milljónum varið í nýja vatnshreinsistöð en í ljós kom að bakterían sem menn huguðst nota mátti sín lítils við síberískar vetraraðstæður.
„Líkt og venjulega dregur það úr virkni okkar ströngu laga að það er valkvætt að fara eftir þeim,“ segir vistfræðingurinn Sergei Shapkhayev. „Peningum er úthlutað en svo er þeim stolið.“
Á sama tíma og aðstæður í og við vatnið hafa versnað hefur einnig dregið úr fjárframlögum til vísindastarfa, segja bæði Timoshkin og Mamontov. „Hvernig getur þú skorið niður í krísu?“ spyr Timoshkin. „Það er eins og að segja upp faraldsfræðingum í bólusóttarfaraldri.“