Sænska siðanefndin Centrala etikprövningsnämnden hefur komist að þeirri niðurstöðu að ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini og meðhöfundar hans að vísindagreinum um plastbarkaígræðslur í menn hafi gerst sekir um vísindalegt misferli við greinaskrifin.
Siðanefndin kemst að þeirri niðurstöðu að í sex fræðigreinum Macchiarinis hafi hann fegrað ástand sjúklinga sinna. Íslensku læknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson voru meðhöfundar greinar um rannsókn á Andemariam Beyene, Eritríumanni sem bjó á Íslandi og glímdi við krabbamein í barka.
Í næstu viku verða kynntar niðurstöður óháðrar rannsóknarnefndar Háskóla Íslands og Landspítala um plastbarkamálið. Í nefndinni sitja Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn, Georg Bjarnason, krabbameinslæknir og vísindamaður í Kanada, og María Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í geðlækningum í Noregi.