Fyrrverandi stjórnarformaður Facebook er harðorður í garð samfélagsmiðilsins og sakar hann um að nýta sér varnarleysi fólks. „Guð veit hvaða áhrif þetta hefur á heila barna,“ sagði Sean Parker, sem gekk til liðs við Facebook árið 2004, í samtali við vefsíðuna Axios en Business Insider greinir frá.
„Hugsunin á bak við smíði þessara forrita snerist um hvernig við gætum eytt eins miklum tíma og athygli og mögulegt er.“
Parker segir að brellan sé að hanna samfélagsmiðilinn þannig að framleiðsla heilans á dópamíni aukist þegar einhver skrifar ummæli við færsluna manns eða lækar hana. Það fái fólk til að skrifa fleiri færslur og fá enn fleiri ummæli.
„Þetta er hringrás sem er einmitt eitthvað sem hakkari eins og ég sjálfur hefði fundið upp á vegna þess að þetta snýst um að nýta sér varnarleysi mannssálarinnar,“ sagði Parker. „Þetta er ég, þetta er Mark [Zuckerberg], þetta er Kevin Systrom hjá Instagram. Allt þetta fólk hafði skilning á þessu en gerði það samt.“
Facebook hefur ekki svarað fyrirspurnum blaðamanns Business Insider um ummæli Seans Parkers.