Loftslagsbreytingar eiga eftir að versna

Reyk leggur frá Niederaussem-orkuverinu í nágrenni Bergheim í Vestur-Þýskalandi.
Reyk leggur frá Niederaussem-orkuverinu í nágrenni Bergheim í Vestur-Þýskalandi. AFP

Lofts­lags­breyt­ing­ar hækka sí­fellt hita­stig jarðar og fær­ast fyr­ir vikið sí­fellt nær því að verða óaft­ur­kræf­ar. Þessu vöruðu vís­inda­menn við á ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi í dag. 

„Lofts­lags­breyt­ing­ar eru staðreynd. Þær eru hættu­leg­ar og þær eiga eft­ir að versna heil­mikið,“ sagði Joh­an Rockstrom, fram­kvæmda­stjóri vist­vernd­ar­stofn­un­ar­inn­ar Stockholm Resilience Centre.

Sagði hann vís­inda­menn hafa aflað vís­bend­inga síðustu tvö ár um að jarðarbú­ar séu nú á hraðleið með að gera ástandið óaft­ur­kræft.

„Hugsið um ein­hvern sem hall­ar sér aft­ur í stól og læt­ur hann halda jafn­vægi á tveim­ur fót­um,“ lagði Sybren Drijf­hout, pró­fess­or við Uni­versity of Sout­hampt­on, til. Jafn­vægispunkt­ur­inn er þegar hann er ná­kvæm­lega á þeim stað. Örlít­il breyt­ing – ef aðeins er ýtt á – þá fell­ur hann niður.“

Hvað lofts­lags­breyt­ing­arn­ar varði, sé farið yfir þessi  ósýni­legu og óaft­ur­kræfu mörk geti það valdið því að ástandið versni hratt.

Of seint að stöðva bráðnun­ina

Seg­ir AFP-frétta­stof­an suma vís­inda­menn t.a.m. telja yf­ir­borð jarðar hafa náð þeim hita að ekk­ert geti hindrað ís­breiðuna á vest­ur­hluta Suður­skauts­lands­ins í að bráðna, en þar er að finna nóg af frosnu vatni til að hækka yf­ir­borð sjáv­ar um 6-7 metra.

Sú bráðnun kunni að taka 1.000 ár, en sé þetta rétt muni ís­breiðan bráðna óháð því hversu hratt mann­kyni tak­ist að draga úr út­blæstri gróður­húsaloft­teg­unda sem nú halda áfram að stuðla að hlýn­un jarðar.

Rockstrom og hóp­ur annarra vís­inda­manna hafa borið kennsl á slíka punkta að því er fram kem­ur í skýrslu sem kynnt var á fundi Sam­einuðu þjóðanna í dag.

Segja vís­inda­menn­irn­ir hættu á að breyt­ing­arn­ar, þó að sum­ar muni eiga sér stað yfir árþúsunda­tíma­bil, verði óaft­ur­kræf­ar.

Hækki hita­stig um 1-3 gráður kunna stór­ir hlut­ar Græn­lands­jök­uls að bráðna, kór­alrif hverfi sem og  fjöldi jökla á fjöll­um.

Hækki hita­stig um 3-5 gráður breyt­ast stór­ir hlut­ar Amazon-regn­skóg­anna í hita­belt­is­gresj­ur, hægja kann á haf­straum­um sem hafa áhrif á veðurfar beggja vegna Atlants­hafs sem muni einnig hafa áhrif á tíðni og ofsa El Nino-veður­fyr­ir­bær­is­ins.

Hið já­kvæða sé hins veg­ar að Sa­hel-hluti Norður-Afr­íku gæti orðið gróður­sæll.

Sjór hækk­ar um tugi metra

Hækki hita­stig jarðar um meira en 5 stig, sem telst ólík­legt en ekki ómögu­legt, mun eystri hluti Suður­skauts­lands­ins bráðna og sjór mun hækka um tugi metra.

Sífrer­inn á túndr­unni mun einnig bráðna við þess­ar aðstæður, en hann geym­ir nú nær tvisvar sinn­um meiri kolt­ví­sýr­ing en er að finna í and­rúms­loft­inu.

Segja vís­inda­menn­irn­ir jarðarbúa þegar eiga erfitt með að fást við það mikla magn kolt­ví­sýr­ings og me­tangass sem þegar hafi verið sleppt út í and­rúms­loftið.

„Það er mik­il­vægt að minna alla á ástæðu þess að tug­ir þúsunda eru að funda í Bonn,“ sagði Hans Joachim Schelln­huber, for­stjóri Pots­dam-stofn­un­ar­inn­ar í lofts­lags­rann­sókn­um og einn höf­unda skýrsl­unn­ar. „Það er út af þess­ari for­dæm­is­lausu hættu sem mann­kyni staf­ar af hlýn­un jarðar, líkt og vís­ind­in hafa sannað. Þessi erfiði sann­leik­ur,“ bætti hann við, „kann að neyða okk­ur til að end­ur­skoða skamm­tímaþæg­indi og neyslu­hyggju sem hef­ur tíðkast frá því um miðja 20 öld.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert