Miðaldra karlmenn eru sá hópur sem kann síst að haga sér í athugasemdakerfum netmiðlanna og á bloggsíðum. Það eru helst fréttir um konur og útlendinga sem þessi hópur skrifar óviðeigandi athugasemdir við. Þetta segja þeir Árni Matthíasson, einn umsjónarmanna blog.is sem hýst er og rekið af mbl.is og Kristjón Kormákur Guðjónsson, ritstjóri DV. Hvorugur þeirra segist kunna neinar skýringar á því hvers vegna þessi hópur hagi sér svona umfram aðra.
Kristjón segir að karlmenn séu í miklum meirihluta þeirra sem hafi verið bannaðir á athugasemdakerfi DV.is vegna óviðeigandi athugasemda og orðbragðs. Í flestum tilvikum séu þeir miðaldra. „Í athugasemdum við sumar fréttir hafa menn farið algerlega fram úr sér, við höfum stundum ekki undan við að fylgjast með því sem er skrifað. Þegar það gerist höfum við þurft að loka fyrir kerfið,“ segir hann.
Þær fréttir sem helst vekja hörð viðbrögð þessa hóps segir Kristjón vera fréttir af stjórnmálum og þeim flokkum sem séu í ríkisstjórn hverju sinni. „Fréttir um Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkinn virðast kveikja mjög í lesendum DV. Þá verða oft gríðarlega harðar umræður um fréttir sem tengjast femínisma á einhvern hátt og við höfum oft þurft að grípa þar í taumana. Það sama gildir um fréttir af útlendingum og hælisleitendum.“
Kristjón segir að í þessum efnum sé reynt að feta á milli þess að vera vettvangur frjálsra skoðanaskipta og ábyrgra samskipta. „En stundum þarf að vera fundarstjóri og vera leiðinlegur,“ segir hann.
Að sögn Kristjóns getur verið býsna snúið að koma í veg fyrir að fólk, sem ítrekað hefur skrifað óviðeigandi athugasemdir á DV.is, haldi því áfram. „Stundum höfum við bannað einhvern, sem hefur þá bara mætt galvaskur til leiks undir öðru nafni,“ segir hann, en athugasemdakerfi DV.is er tengt við Facebook-síður notenda. „Við vitum dæmi um menn sem eru með allt að tíu gervisíður og það er erfitt að fást við það.“
Árni segist geta nefnt mörg dæmi um fréttir eða atburði sem hafa vakið upp sterk viðbrögð á blog.is og í athugasemdakerfi mbl.is. Eitt svæsnasta dæmið sé umdeild klámráðstefna sem til stóð að halda á Hótel Sögu árið 2007, en á þeim tíma var bloggið mjög vinsæll miðill. „Þá voru margir ungir karlmenn sem höguðu sér þannig að það þurfti að taka út bloggfærslur þeirra. Þeir skrifuðu mjög óþverralega hluti um fólk, sökuðu nafngreinda einstaklinga um að vera með geðsjúkdóma eða að vera viðriðna glæpsamlegt athæfi. Þá var konum sem mótmæltu þessari ráðstefnu hótað nauðgunum, barsmíðum og öðru ofbeldi. Obbinn af þeim sem svona skrifuðu var karlmenn á þrítugsaldri,“ segir Árni.
Hann segir að síðustu fimm ár eða svo hafi umsjónarmenn blog.is og athugasemda við fréttir á mbl.is eingöngu þurft að hafa afskipti af miðaldra karlmönnum. Tilefnið sé yfirleitt fréttir af innflytjendum eða af konum sem krefjist réttar síns á einhvern hátt.
Árni segir að helst sé gripið inn í þegar verið sé að saka fólk um ólöglegt athæfi. Ekki sé heldur hægt að samþykkja þegar fólki séu gerðir upp geðsjúkdómar eða það svívirt. „Við leyfum heldur ekki að veist sé að manni eða hópi manna vegna trúarbragða, litarháttar eða kynhneigðar, það er í samræmi við almenn hegningarlög.“
Árni segir að ýmsar leiðir séu notaðar í þessu sambandi. Stundum sé bloggsíðum lokað, sumum sé bannað alfarið að blogga hjá blog.is. Í sumum tilvikum sé lokað fyrir IP-tölur, en sumir reyni að komast hjá því með því að stofna erlenda IP-tölu. „Hjá sumum er býsna einbeittur brotavilji, þeir leita allra leiða til að geta hagað sér dólgslega á netinu.“
Nýverið greindu norskir fjölmiðlar frá því að karlar yfir fimmtugu eru 90% þeirra sem skrifa athugasemdir sem er eytt úr athugasemdakerfi norska vefmiðlisins VG. Helsta ástæða þess að athugasemdum þeirra er eytt eru að í þeim er talað á óviðeigandi hátt um konur og útlendinga. Í viðtali við norska ríkissjónvarpið sagðist Øyvind Solstad, umsjónarmaður athugasemdakerfis VG, telja að fyrir þessu væru nokkrar ástæður. „Sumir átta sig einfaldlega ekki á því að þeir eru á opinberum umræðuvettvangi,“ segir Solstad og bætir við að unga fólkið sé ekki sá hópur sem helst þurfi kennslu í hvernig beri að haga sér á netinu, heldur ætti það frekar við um þá sem eldri eru. „Unga fólkið hefur alist upp í netheimum og þess fyrir utan hafa foreldrar þess og skólinn sífellt hamrað á því að það verði að vanda það hvernig það tjáir sig á netinu. Eldra fólkið er margt hvert nýbyrjað að nota netið og áttar sig ekki á því hvaða áhrif hegðun þess getur haft.“