Tim Cook, forstjóri Apple, gerði ofnotkun á tækni að umtalsefni sínu í ræðu sem hann hélt í Harlow College-skólanum í Essex á Englandi í dag. Hann telur að það ætti að takmarka tækninotkun í skólum.
„Ég á ekki börn, en ég á frænda sem ég reyni að setja einhver mörk,“ sagði Cook. „Það eru sumir hlutir sem ég leyfi ekki; ég vil til að mynda ekki að hann sé á samfélagsmiðlum.“
Tæknifyrirtæki á borð við Apple hafa í áraraðir unnið að því að fá græjur sínar til notkunar í skólum. Þrátt fyrir það viðurkenndi Cook að stundum eigi iPad ekki endilega við í skólastofunni.
„Það eru enn hlutir sem þú vilt tala um og skilja. Haldiði að tæknin komi að góðum notum í bókmenntafræðiáfanga? Líklegast ekki.“
Cook er ekki fyrsti frammámaðurinn úr tæknigeiranum sem lýsir yfir efasemdum um áhrif tækninnar á samfélagið, en vísindamenn hafa bent á tengsl milli andlegrar heilsu og tækninotkunar.
Sean Parker, fyrsti stjórnarformaður Facebook, lýsti því til að mynda yfir á dögunum að samfélagsmiðlar væru að misnota sér varnarleysi mannsins, og bætti við: „Guð má vita hvað þetta gerir við heila barnanna okkar.“
Chamath Palihapitiya, annar fyrrum yfirmaður hjá Facebook tekur í sama streng, en hann lét hafa eftir sér í fyrra að samfélagsmiðlar væru að eyðileggja gangverk samfélagsins og hann væri þjakaður af sektarkennd vegna hans þáttar í því.
Apple hefur sjálft fengið á sig mikla gagnrýni fyrir áhrif vara þeirra á börn. Eftir að tveir lykilfjárfestar lýstu opinberlega yfir áhyggjum af því að börn væru að verða háð iPhone-um hefur fyrirtækið lofað að innleiða nýja eiginleika sem eiga að taka á vandanum. Ekki liggur þó fyrir hvað felst í því.