Apple gæti lagt af framleiðsluna á iPhone X í sumar og yrði það í fyrsta sinn síðan 2014 sem Apple leggur niður iPhone-gerð eftir að hafa framleitt aðeins eina kynslóð.
Þessu er greint frá á fréttavef Forbes þar sem vitnað er í markaðsgreinandann Ming-Chi Kuo sem oft hefur afhjúpað framtíðaráform Apple. Hann segir að lítill áhugi fyrir iPhone X í Kína sé ein af meginástæðunum þar sem hönnun skjásins hefur ekki fallið í kramið hjá neytendum. Þá sýndi ný könnun að áhugi á iPhone hefði náð sögulegu lágmarki.
Þrátt fyrir að iPhone X muni ekki standast væntingar telur Kuo að tekjur Apple vaxi um 5% á fyrsta fjórðungi þessa árs og 10% á síðasta fjórðungnum. Vöxturinn muni stafa af sölu á iPhone 8 og iPhone 8 plus. Auk þess verði nýjar gerðir kynntar í haust sem höfða betur til Kínamarkaðar.