Öskuský vegna sólarhrings langs sprengigoss í Öræfajökli gæti lamað flugumferð í öllum flughæðum og hindrað flugtök og lendingar víðast hvar í Evrópu og næði til meginlandsins á 24 klukkustundum.
Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknarhóps við Háskóla Íslands, en hópurinn hefur rannsakað áhrif öskugosa á Íslandi á flug í Evrópu. Talið er að slíkt gos gæti lamað alla flugumferð milli landa í tvo til fimm daga.
Tvær sviðsmyndir um áhrif stórra eldgosa hér á landi hafa verið settar upp í samræmi við öskudreifingarlíkan og líkleg atburðarás verið fundin út. Sprengigos í Öræfajökli er upphafið að annarri sviðsmyndinni og eldgos í Eyjafjallajökli er kveikjan að hinni.
Að því er fram kemur í niðurstöðum vísindamannanna gæti sprengigos í Öræfajökli einnig haft áhrif á siglingar, en við síðasta sprengigos í jöklinum árið 1362 sendi eldfjallið frá sér mikla gjósku og þykkt vikurlag myndaðist á yfirborði sjávar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.