Ef það er eitthvað sem allir vilja, án tillits til stöðu eða stéttar, þá er það að finna þessa torskildu tilfinningu að maður sé hamingjusamur. Tilfinningin er hins vegar það torskilin (sumir segja jafnvel að hamingjan sé ekki til) að þegar við erum í raun hamingjusöm erum við ekki viss um að við séum að upplifa þá tilfinningu. Er þetta hamingjan? Spyrjum við okkur.
Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins birtist úttekt á því um helgina hvað vísindi dagsins í dag telja að geti aukið hamingju okkar, allt frá umhverfisþáttum upp í mataræði. Einnig er rætt við nokkra Íslendinga, sérfræðinga og leikmenn, um hvað hefur áhrif á hamingju okkar.
„Það hefur verið bent á að listinn yfir allt það sem maður á að gera til að vera hamingjusamur sé svo langur að það sé engin leið að komast yfir það. Besta ráðið að mínu mati er hreinlega að gera minna,“ segir Þórgunnur Ársælsdóttir, geðlæknir og formaður Geðlæknafélags Íslands.
„Auðvitað snýst þetta um jafnvægi. Ef ég geri mjög lítið og eyði 12 tímum á sólarhring í rúminu þá er gott ráð að gera aðeins meira en þeir eru fleiri sem eru að gera of mikið.“
Þórgunnur telur mikið til í þeim orðum að flest vandamál mannsins snúist um það að við getum ekki setið ein með okkur sjálfum og gert ekki neitt í svolitla stund en hún segir hvíld í því að gera ekki neitt og telur að það hafi verið eitthvert vit í boðorði Biblíunnar um að taka einn hvíldardag í viku.
En af hverju erum við á spani?
„Að hluta til er þetta samfélagið. Við vitum til dæmis öll að það er rosalega hollt, andlega og líkamlega, að hreyfa sig og hreyfing ætti að vera partur af lífi okkar allra en hvernig eiga foreldrar ungra barna að finna tíma til að lifa farsælu lífi, sinna vinnunni, börnunum, heimilinu og fara svo í stressi í líkamsrækt? Sex á morgnana og sofa þá ekki?“
Í þessu samhengi finnst Þórgunni mjög athygliverð umræðan um að stytta vinnuvikuna, en mælingar sýna að það kemur vel út, með færri veikindadögum, meiri ánægju en jafnmiklum afköstum.
„Við búum við ákveðin náttúrulögmál. Það tekur jörðina 365 daga að ferðast í kringum sólina, dagur og nótt skiptast á og svo framvegis. Stundum gleymum við að sumar reglur sem við lifum við eru ekki lögmál heldur bara eitthvað sem við mannfólkið bjuggum til. Það er til dæmis ekkert náttúrulögmál að fullur vinnudagur eigi að vera 8 tímar,“ segir Þórgunnur meðal annars í viðtali sem birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Þar sem í lífinu skiptast á skin og skúrir er jafnmikilvægt að læra að lifa með súru tímunum á sama hátt og við njótum þess þegar lífið leikur við okkur en þar er hængur á.
„Við forðumst vanlíðan og flýjum hana með misheilbrigðum hætti þegar það eina sem við þurfum kannski að gera er að sitja og hlusta á hvaða skilaboð vanlíðanin er að senda okkur. Ef við finnum fyrir depurð er kannski eitthvað sem þarf að hlusta á og breyta en við komumst ekki að því hvað það er ef við leyfum okkur ekki að staldra við og skoða hvað er í gangi. Flóttaleiðir okkar geta verið að deyfa tilfinningar með mat, vímugjöfum eða með því að hafa nógu mikið að gera og vera alltaf á fullu. Það er líka svo sterkt viðhorfið í samfélaginu að það sé svo smart að vera nógu upptekinn. En okkur líður ekkert endilega vel þannig. Að gera minna og meiri ró er að mínu mati það sem gæti fært mörgum meiri hamingju en um leið að þola við í erfiðum tilfinningum en flýja þær ekki.“
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var inntur eftir því hversu stóran þátt genin ættu í því hvernig við upplifum líf okkar, hvort þau hefðu mikið að segja um það hvort við upplifum okkur hamingjusöm eða óhamingjusöm. Kári segir genin leika afar stórt hlutverk.
„Heilinn er líffæri sem býr til hugsanir og tilfinningar. Við reiknum með að hamingjan byggist á einhvers konar tilfinningum þannig að hamingjan, ef hún er til, hlýtur að eiga rætur sínar í upplýsingum sem liggja í erfðamenginu af því að upplýsingar sem liggja í erfðamenginu búa til heilann.
Þannig að allt í okkar eðli á að miklu leyti rætur sínar í upplýsingum sem liggja í DNA. Í þessu, í fjölbreytileika í röðun níturbasa í DNA, liggur eiginlega allur fjölbreytileiki í lífheimi og meðal annars mismunurinn á því hve sumir eru hamingjusamir og aðrir ekki.“
Hverjir eru þá möguleikarnir á því, fyrir manneskju með gen sem eru kannski ekki hamingjunni hagstæð, að upplifa engu að síður hamingju?
„Hún þarf að leggja meira á sig. Genin búa til tilhneigingu til að eitthvað verði frekar svona heldur en hinsegin, og þeir sem hafa meiri tilhneigingu til að vera hamingjusamir þurfa sjálfsagt að leggja minna á sig til þess.
Umhverfið hefur áhrif á okkur að einhverju leyti en það umhverfi sem við sækjum í og það umhverfi sem við forðumst, er ákvarðað af starfsemi heilans sem er líffæri sem er búið til úr upplýsingum sem liggja í DNA. En þetta er alltaf samspil. Það er ekki hægt að hafa áhrif á augnlit okkar, að minnsta kosti verðurðu að grípa til dramatískra aðgerða til þess, en þú getur haft áhrif á ýmislegt í þínu eðli og bætt á margan máta.
En svo er það þetta með hamingjuna að hún er skrýtið stöff því líf okkar allra fer upp og niður. Ég held að endalaus hamingja sé kannski svona eins og þeyttur rjómi á rúgbrauð á hverjum degi. Það væri mjög stöðugt hugarástand sem ég held að sé ómögulegt að ná.
Einnig er þetta flókið því maður getur orðið hamingjusamur í vesældarástandi. Þegar það er erfitt hjá börnunum, sem gerir mann óhamingjusaman, gleðst maður um leið yfir því að geta verið til staðar í erfiðum aðstæðum þeirra, veikindum eða öðru og það fyllir mann gleði.
Það sem lætur okkur líða vel í augnablikinu er svo flókið því nákvæmlega sami hlutur getur haldið okkur í djúpri angist en látið okkur svo líða vel. Það fer bara allt eftir því hvaðan þú horfir á þetta.“
Þórhildur Magnúsdóttir tekur sem stendur þátt í verkefni sem á íslensku er kallað hamingjuárið og er unnið eftir bók Gretchen Rubin: The Happiness Project. Markmiðið er að vinna ýmis lítil eða stór verkefni í 12 mánuði til að auka hamingjuna í lífinu.
„Höfundur bókarinn er mjög praktísk manneskja. Það hljómar kannski flatt og kassalaga að setja hamingjuna á „to-do“ listann en í praktík þurfum við að gera eitthvað til að bæta líf okkar,“ segir Þórhildur.
„Sambönd við fólk er það sem gefur mér mest. Það er það sem mörgum finnst óþægilegt að gera, að setja sambönd á aðgerðalistann; að það sé ekki rómantískt að vera með planað stefnumót í hverri viku, að þetta eigi meira að vera spontant og koma af sjálfu sér. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru allir svo uppteknir af öllu og engu sem maður er að gera. Tíminn líður svo fljótt og allt í einu ertu ekki búinn að hitta vini þína eða fara á stefnumót í marga mánuði. Ég er alla vega algjörlega búin að henda því frá mér að það sé eitthvað ósexí að plana að fara á stefnumót og vera bara með það skrifað niður. Eða að skrifa í dagbókina, hringja í vinkonu,“ segir Þórhildur sem setur þessa hluti óhikað inn í dagbókina.
Til að halda sér við efnið stofnaði Þórhildur Facebook-hópinn: „Happiness Project Samferðahópur“ sem áhugasamir geta gengið í til að fræðast nánar um málið.
Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, hefur um árabil velt hamingjunni fyrir sér en hugmyndin um hvort það sé hægt að skipuleggja hamingjuríka borg er honum ofarlega í huga.
„Litir í umhverfinu hafa áhrif. Ef þú býrð í gráu einsleitu umhverfi, þar sem ekkert gleður þig myndi ég segja að það drægi smátt og smátt úr hamingjunni. Það er líka mikilvægt að hafa marga staði þar sem hægt er að hittast en það ýtir undir félagslega virkni,“ segir hann m.a. í viðtalinu.
„Á ferðalögum um heiminn gleður það mig að sjá eitthvað annað. Mér leiðist til dæmis ef ég sé bara sömu verslanirnar í öllum borgum. Það er þægilegt en það er ekki skemmtilegt. Manni finnst gaman að sjá eitthvað skrýtið og óvænt,“ segir hann.
„Líka þegar maður fer af einum stað á annan, gengur um hverfi, að það sé eitthvað óvænt sem hægt sé að rekast á, frekar en að umhverfið sé sterílt, að það sé eitthvert líf í hverfinu. Allt þetta tengist hamingjunni,“ segir hann.
„Þegar á að breyta einhverju svæði viltu ekki sjá það verða að bílastæði, það er ekkert sem gleður þig við það. Það er skemmtilegra að sjá fleira gangandi fólk og samtal þess á milli. Það er verið að skrifa fræðibækur um þetta málefni núna; þetta er rannsóknarefni í umhverfissálfræði sem á eftir að koma betur til skila til almennings. Ég myndi skilyrðislaust segja að allt þetta hefði áhrif á hamingjuna og að Reykjavíkurborg hefði öll skilyrði til að vera hamingjurík borg.“