Hvernig verðurðu hamingjusamari?

Hamingjan er torskilin tilfinning sem flestir vilja þó finna.
Hamingjan er torskilin tilfinning sem flestir vilja þó finna.

Ef það er eitt­hvað sem all­ir vilja, án til­lits til stöðu eða stétt­ar, þá er það að finna þessa tor­skildu til­finn­ingu að maður sé ham­ingju­sam­ur. Til­finn­ing­in er hins veg­ar það tor­skil­in (sum­ir segja jafn­vel að ham­ingj­an sé ekki til) að þegar við erum í raun ham­ingju­söm erum við ekki viss um að við séum að upp­lifa þá til­finn­ingu. Er þetta ham­ingj­an? Spyrj­um við okk­ur.

Í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins birt­ist út­tekt á því um helg­ina hvað vís­indi dags­ins í dag telja að geti aukið ham­ingju okk­ar, allt frá um­hverf­isþátt­um upp í mataræði. Einnig er rætt við nokkra Íslend­inga, sér­fræðinga og leik­menn, um hvað hef­ur áhrif á ham­ingju okk­ar. 

Gera minna og meiri ró

„Það hef­ur verið bent á að list­inn yfir allt það sem maður á að gera til að vera ham­ingju­sam­ur sé svo lang­ur að það sé eng­in leið að kom­ast yfir það. Besta ráðið að mínu mati er hrein­lega að gera minna,“ seg­ir Þórgunn­ur Ársæls­dótt­ir, geðlækn­ir og formaður Geðlækna­fé­lags Íslands. 

Þórgunnur Ársælsdóttir geðlæknir.
Þórgunn­ur Ársæls­dótt­ir geðlækn­ir. Árni Sæ­berg

„Auðvitað snýst þetta um jafn­vægi. Ef ég geri mjög lítið og eyði 12 tím­um á sól­ar­hring í rúm­inu þá er gott ráð að gera aðeins meira en þeir eru fleiri sem eru að gera of mikið.“
Þórgunn­ur tel­ur mikið til í þeim orðum að flest vanda­mál manns­ins snú­ist um það að við get­um ekki setið ein með okk­ur sjálf­um og gert ekki neitt í svo­litla stund en hún seg­ir hvíld í því að gera ekki neitt og tel­ur að það hafi verið eitt­hvert vit í boðorði Biblí­unn­ar um að taka einn hvíld­ar­dag í viku.

En af hverju erum við á spani?

„Að hluta til er þetta sam­fé­lagið. Við vit­um til dæm­is öll að það er rosa­lega hollt, and­lega og lík­am­lega, að hreyfa sig og hreyf­ing ætti að vera part­ur af lífi okk­ar allra en hvernig eiga for­eldr­ar ungra barna að finna tíma til að lifa far­sælu lífi, sinna vinn­unni, börn­un­um, heim­il­inu og fara svo í stressi í lík­ams­rækt? Sex á morgn­ana og sofa þá ekki?“
Í þessu sam­hengi finnst Þórgunni mjög at­hygli­verð umræðan um að stytta vinnu­vik­una, en mæl­ing­ar sýna að það kem­ur vel út, með færri veik­inda­dög­um, meiri ánægju en jafn­mikl­um af­köst­um.

„Við búum við ákveðin nátt­úru­lög­mál. Það tek­ur jörðina 365 daga að ferðast í kring­um sól­ina, dag­ur og nótt skipt­ast á og svo fram­veg­is. Stund­um gleym­um við að sum­ar regl­ur sem við lif­um við eru ekki lög­mál held­ur bara eitt­hvað sem við mann­fólkið bjugg­um til. Það er til dæm­is ekk­ert nátt­úru­lög­mál að full­ur vinnu­dag­ur eigi að vera 8 tím­ar,“ seg­ir Þórgunn­ur meðal ann­ars í viðtali sem birt­ist í heild í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins.

Þar sem í líf­inu skipt­ast á skin og skúr­ir er jafn­mik­il­vægt að læra að lifa með súru tím­un­um á sama hátt og við njót­um þess þegar lífið leik­ur við okk­ur en þar er hæng­ur á.

„Við forðumst van­líðan og flýj­um hana með mis­heil­brigðum hætti þegar það eina sem við þurf­um kannski að gera er að sitja og hlusta á hvaða skila­boð van­líðanin er að senda okk­ur. Ef við finn­um fyr­ir dep­urð er kannski eitt­hvað sem þarf að hlusta á og breyta en við kom­umst ekki að því hvað það er ef við leyf­um okk­ur ekki að staldra við og skoða hvað er í gangi. Flótta­leiðir okk­ar geta verið að deyfa til­finn­ing­ar með mat, vímu­gjöf­um eða með því að hafa nógu mikið að gera og vera alltaf á fullu. Það er líka svo sterkt viðhorfið í sam­fé­lag­inu að það sé svo smart að vera nógu upp­tek­inn. En okk­ur líður ekk­ert endi­lega vel þannig. Að gera minna og meiri ró er að mínu mati það sem gæti fært mörg­um meiri ham­ingju en um leið að þola við í erfiðum til­finn­ing­um en flýja þær ekki.“

Ham­ingj­an í erfðameng­inu

Kári Stefánsson.
Kári Stef­áns­son.


Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, var innt­ur eft­ir því hversu stór­an þátt genin ættu í því hvernig við upp­lif­um líf okk­ar, hvort þau hefðu mikið að segja um það hvort við upp­lif­um okk­ur ham­ingju­söm eða óham­ingju­söm. Kári seg­ir genin leika afar stórt hlut­verk.

„Heil­inn er líf­færi sem býr til hugs­an­ir og til­finn­ing­ar. Við reikn­um með að ham­ingj­an bygg­ist á ein­hvers kon­ar til­finn­ing­um þannig að ham­ingj­an, ef hún er til, hlýt­ur að eiga ræt­ur sín­ar í upp­lýs­ing­um sem liggja í erfðameng­inu af því að upp­lýs­ing­ar sem liggja í erfðameng­inu búa til heil­ann.

Þannig að allt í okk­ar eðli á að miklu leyti ræt­ur sín­ar í upp­lýs­ing­um sem liggja í DNA. Í þessu, í fjöl­breyti­leika í röðun nít­ur­basa í DNA, ligg­ur eig­in­lega all­ur fjöl­breyti­leiki í líf­heimi og meðal ann­ars mis­mun­ur­inn á því hve sum­ir eru ham­ingju­sam­ir og aðrir ekki.“


Hverj­ir eru þá mögu­leik­arn­ir á því, fyr­ir mann­eskju með gen sem eru kannski ekki ham­ingj­unni hag­stæð, að upp­lifa engu að síður ham­ingju?

„Hún þarf að leggja meira á sig. Genin búa til til­hneig­ingu til að eitt­hvað verði frek­ar svona held­ur en hinseg­in, og þeir sem hafa meiri til­hneig­ingu til að vera ham­ingju­sam­ir þurfa sjálfsagt að leggja minna á sig til þess.

Um­hverfið hef­ur áhrif á okk­ur að ein­hverju leyti en það um­hverfi sem við sækj­um í og það um­hverfi sem við forðumst, er ákv­arðað af starf­semi heil­ans sem er líf­færi sem er búið til úr upp­lýs­ing­um sem liggja í DNA. En þetta er alltaf sam­spil. Það er ekki hægt að hafa áhrif á augn­lit okk­ar, að minnsta kosti verðurðu að grípa til drama­tískra aðgerða til þess, en þú get­ur haft áhrif á ým­is­legt í þínu eðli og bætt á marg­an máta.

En svo er það þetta með ham­ingj­una að hún er skrýtið stöff því líf okk­ar allra fer upp og niður. Ég held að enda­laus ham­ingja sé kannski svona eins og þeytt­ur rjómi á rúg­brauð á hverj­um degi. Það væri mjög stöðugt hug­ar­ástand sem ég held að sé ómögu­legt að ná.
Einnig er þetta flókið því maður get­ur orðið ham­ingju­sam­ur í ve­sæld­ar­ástandi. Þegar það er erfitt hjá börn­un­um, sem ger­ir mann óham­ingju­sam­an, gleðst maður um leið yfir því að geta verið til staðar í erfiðum aðstæðum þeirra, veik­ind­um eða öðru og það fyll­ir mann gleði.
Það sem læt­ur okk­ur líða vel í augna­blik­inu er svo flókið því ná­kvæm­lega sami hlut­ur get­ur haldið okk­ur í djúpri ang­ist en látið okk­ur svo líða vel. Það fer bara allt eft­ir því hvaðan þú horf­ir á þetta.“

Hag­nýt ráð fyr­ir ham­ingj­una

Þór­hild­ur Magnús­dótt­ir tek­ur sem stend­ur þátt í verk­efni sem á ís­lensku er kallað ham­ingju­árið og er unnið eft­ir bók Gretchen Ru­bin: The Happ­iness Proj­ect. Mark­miðið er að vinna ýmis lít­il eða stór verk­efni í 12 mánuði til að auka ham­ingj­una í líf­inu.

Þórhildur Magnúsdóttir.
Þór­hild­ur Magnús­dótt­ir. Hall­dór Svein­björns­son


„Höf­und­ur bók­ar­inn er mjög praktísk mann­eskja. Það hljóm­ar kannski flatt og kassa­laga að setja ham­ingj­una á „to-do“ list­ann en í praktík þurf­um við að gera eitt­hvað til að bæta líf okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur.

„Sam­bönd við fólk er það sem gef­ur mér mest. Það er það sem mörg­um finnst óþægi­legt að gera, að setja sam­bönd á aðgerðal­ist­ann; að það sé ekki róm­an­tískt að vera með planað stefnu­mót í hverri viku, að þetta eigi meira að vera spont­ant og koma af sjálfu sér. Staðreynd­in er hins veg­ar sú að það eru all­ir svo upp­tekn­ir af öllu og engu sem maður er að gera. Tím­inn líður svo fljótt og allt í einu ertu ekki bú­inn að hitta vini þína eða fara á stefnu­mót í marga mánuði. Ég er alla vega al­gjör­lega búin að henda því frá mér að það sé eitt­hvað ósexí að plana að fara á stefnu­mót og vera bara með það skrifað niður. Eða að skrifa í dag­bók­ina, hringja í vin­konu,“ seg­ir Þór­hild­ur sem set­ur þessa hluti óhikað inn í dag­bók­ina.

 Til að halda sér við efnið stofnaði Þór­hild­ur Face­book-hóp­inn: „Happ­iness Proj­ect Sam­ferðahóp­ur“ sem áhuga­sam­ir geta gengið í til að fræðast nán­ar um málið.

Ham­ingj­an í borg­inni 

Gunn­ar Her­sveinn, heim­spek­ing­ur og rit­höf­und­ur, hef­ur um ára­bil velt ham­ingj­unni fyr­ir sér en hug­mynd­in um hvort það sé hægt að skipu­leggja ham­ingju­ríka borg er hon­um of­ar­lega í huga. 

„Lit­ir í um­hverf­inu hafa áhrif. Ef þú býrð í gráu eins­leitu um­hverfi, þar sem ekk­ert gleður þig myndi ég segja að það drægi smátt og smátt úr ham­ingj­unni. Það er líka mik­il­vægt að hafa marga staði þar sem hægt er að hitt­ast en það ýtir und­ir fé­lags­lega virkni,“ seg­ir hann m.a. í viðtal­inu.

„Á ferðalög­um um heim­inn gleður það mig að sjá eitt­hvað annað. Mér leiðist til dæm­is ef ég sé bara sömu versl­an­irn­ar í öll­um borg­um. Það er þægi­legt en það er ekki skemmti­legt. Manni finnst gam­an að sjá eitt­hvað skrýtið og óvænt,“ seg­ir hann.

„Líka þegar maður fer af ein­um stað á ann­an, geng­ur um hverfi, að það sé eitt­hvað óvænt sem hægt sé að rek­ast á, frek­ar en að um­hverfið sé sterílt, að það sé eitt­hvert líf í hverf­inu. Allt þetta teng­ist ham­ingj­unni,“ seg­ir hann.

„Þegar á að breyta ein­hverju svæði viltu ekki sjá það verða að bíla­stæði, það er ekk­ert sem gleður þig við það. Það er skemmti­legra að sjá fleira gang­andi fólk og sam­tal þess á milli. Það er verið að skrifa fræðibæk­ur um þetta mál­efni núna; þetta er rann­sókn­ar­efni í um­hverf­is­sál­fræði sem á eft­ir að koma bet­ur til skila til al­menn­ings. Ég myndi skil­yrðis­laust segja að allt þetta hefði áhrif á ham­ingj­una og að Reykja­vík­ur­borg hefði öll skil­yrði til að vera ham­ingju­rík borg.“

Gunnar Hersveinn.
Gunn­ar Her­sveinn. Har­ald­ur Jónas­son/​Hari
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka