Fundu óvænt faldar mörgæsabyggðir

1,5 milljónir mörgæsa af tegundinni Adélie fundust nýlega á Hættueyjum …
1,5 milljónir mörgæsa af tegundinni Adélie fundust nýlega á Hættueyjum undan Suðurskautsskaganum. AFP

Á afskekktum eyjum undan Suðurskautsskaganum hafa fundist blómlegar mörgæsabyggðir sem telja hátt í 1,5 milljónir mörgæsa af tegundinni Adélie, sem farið hefur hratt hnignandi annars staðar á jörðinni. Uppgötvunin hefur komið vísindamönnum mjög á óvart.

Greint er frá fundinum í vísindaritinu Scientific Reports, en mörgæsirnar fundust á svonefndum Danger Islands, sem útlagst gætu á íslensku sem Hættueyjar.

Eyjaklasinn telur níu eyjar og liggja þær undan nyrsta odda Suðurskautsskagans þar sem hann skagar í átt að Suður-Ameríku. Byggðirnar eru nú taldar þær þriðju og fjórðu stærstu í heiminum.

Góðar fréttir

„Þetta kemur verulega á óvart og hefur raunveruleg áhrif á það hvernig við nálgumst þennan heimshluta,“ segir meðhöfundur greinarinnar, Heather Lynch, í samtali við fréttaveitu AFP.

Aðeins 160 kílómetrum frá byggðunum tveimur, á vesturhluta skagans, hefur Adélie-mörgæsum fækkað um 70 prósent á undanförnum áratugum vegna bráðnunar íss, sem orsakir á að rekja til hnattrænar hlýnunar.

„Þetta eru góðar fréttir meðal annars í því ljósi að aðrar rannsóknir hafa leitt í ljós að þetta svæði [austurhluti Suðurskautsskagans] mun líklega verða stöðugra gagnvart loftslagsbreytingum en vesturhlutinn,“ segir Lynch.

Erfitt að komast að Hættueyjum

Adélie er ein fimm tegunda mörgæsa sem lifa á Suðurskautslandinu og þar í kring. Þær eru að meðalstærð; verða að jafnaði um 70 sentimetra háar og vega frá þremur upp í sex kíló.

Byggðirnar á Hættueyjum fundust þökk sé gervihnattamyndum, segir rannsóknarhópurinn sem er frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.

„Það er ekki að ástæðulausu sem þær nefnast Hættueyjar,“ segir Lynch. „Svæðið er þakið þykkum hafís meirihluta ársins, og jafnvel á hápunkti sumarsins er erfitt að komast að svæðinu til að sinna rannsóknum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert