Skapari vefjarins harðorður í garð netrisanna

AFP

Tim Berners-Lee, skapari veraldarvefjarins, fer hörðum orðum um netrisana Facebook, Google, og Twitter fyrir að koma rangindum og vafasömum pólitískum auglýsingum á framfæri á meðan þeir nýta sér persónuupplýsingar notenda. 

Í viðtali við Financial Times sagði Berners-Lee að nýtt regluverk eða ný löggjöf gæti hjálpað til við að takmarka vald stærstu tæknifyrirtækjanna sem væru orðin of stór. Hann lagði til að þeim yrði gert að gefa notendum meiri stjórn yfir persónuupplýsingum sínum. 

Berners-Lee sagði að áhyggjur hans hefðu farið vaxandi vegna þess hve mikið af gögnum hefur safnast á fá fyrirtæki. Hann lagði einnig til að tæknifyrirtækin prófuðu nýjar auglýsingaaðferðir sem væru þannig að notendur greiddu fast gjald í stað þess fyrirtækin nýttu persónuupplýsingar þeirra til að afla sér tekna. 

„Vitanlega getum við ímyndað okkur betri heim þar sem þú hefðir val um leitarvél og val um hvaða samfélagsmiðla þú vilt nota,“ sagði Berners-Lee. 

„Vefurinn er ekki eins og hann var fyrir mörgum árum. Það sem áður var ríkt úrval af bloggum og vefsíðum hefur verið kramið undir þunga fárra ráðandi fyrirtækja sem stjórna aðgengi að hugmyndum og skoðunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert