Fá styrk til að rannsaka kynjajafnrétti

Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og alþjóðlegir samstarfsfélagar hennar hafa fengið rúmlega 365 milljóna króna styrk úr Horizon 2020 rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB til verkefnis um kynjajafnrétti í vísindasamfélaginu. 

Verkefnið ber heitið ACT (Communities of Practice for Accelerating Gender Equality and Institutional Change in Research and Innovation across Europe). Því er ætlað að stuðla að kynjajafnrétti í vísindasamfélaginu með því að efla innviði þekkingarsköpunar og þekkingarmiðlunar í þágu kerfislægra breytinga, segir í fréttatilkynningu frá HÍ.

26 milljónir í hlut HÍ

Verkefnið hófst 1. maí, er til þriggja ára og stjórnandi þess er dr. Jörg Müller við rannsóknarstofnunina Internet Interdisciplinary Institute (IN3) við Universitat Oberta de Catalunya á Spáni. Rannsóknarhópurinn samanstendur af fræðafólki frá 17 stofnunum í tíu Evrópuríkjum og Argentínu. Af heildarstyrk til verkefnisins koma 26 milljónir króna í hlut Háskóla Íslands.   

Í verkefninu er sjónum beint að kynjaskekkju á þremur sviðum: starfsmannamálum, ákvarðanatöku og inntaki rannsókna og kennslu á háskólastigi. Þrátt fyrir margvíslegan árangur á þessu sviði síðastliðinn áratug er þekking og reynsla dreifð sem kemur í veg fyrir skipulegar og markvissar aðgerðir. Í verkefninu verður komið upp þekkingarsetrum fyrir jafnréttisstarf í þeim tilgangi m.a. að deila þekkingu, skipuleggja aðgerðir, málþing og ráðstefnur þar sem í senn verður tekið mið af margbreytileika þátttökulandanna og aðstæðum á hverjum stað. Þekkingarsetrin verða rafræn og vistuð á vefgáttinni GenPORT sem þegar er starfrækt innan Evrópusambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka