Facebook upplýsti síðdegis að það hefði fjarlægt 32 notendur eða síður af Facebook og Instagram, þar sem þeir hefðu stundað „samhæfða óekta hegðun“ í óræðum tilgangi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Facebook.
New York Times hafði fyrr í dag greint frá því að Facebook hefði sagt bandarískum þingmönnum frá aðgerðunum, sem koma upp í aðdraganda þingkosninga vestanhafs, sem fram fara í nóvember.
Samfélagsmiðlarisinn segist enn vera á frumstigi rannsóknar sinnar og að fyrirtækið viti ekki hverjir standi að baki þessum samhæfðu aðgerðum, sem New York Times segir að hafi það mögulega að markmiði að ýfa upp pólitískar deilur í aðdraganda þingkosninganna í Bandaríkjunum í haust. Þetta hefur fjölmiðillinn sem áður segir eftir ónefndum heimildarmönnum úr röðum þingmanna, sem hafa rætt málið við Facebook.
Fyrirtækið segir að þeir sem stóðu að þessum fölsku aðgöngum hafi gengið mun lengra í að fela slóð sína en Rússarnir sem taldir eru hafa reynt að hafa áhrif á þingkosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016. Þó útilokar Facebook ekki að einhver tengsl séu á milli þeirra síðna sem núna voru teknar niður og IRA (Internet Research Agency) í St. Pétursborg í Rússlandi.
Telur Facebook að aðgerðir fyrirtækisins eftir að það mál kom upp og hertar öryggisvarnir hafi gert misnotkun miðilsins í þessum tilgangi erfiðari en áður.
Átta síður og 17 notendasíður hafa verið fjarlægðar af Facebook, auk sjö Instagram-aðganga, skrifar Nathaniel Gleicher, yfirmaður hjá netöryggisdeild Facebook, í tilkynningu fyrirtækisins. Hann segir að þær hafi allar verið fjarlægðar í morgun og að í heildina hafi 290.000 notendur verið að fylgja að minnsta kosti einni þessara síðna.
Fyrsta síðan var stofnuð í mars í fyrra, en sú nýlegasta var stofnuð í maí síðastliðnum. Stærstu síðurnar gengu undir nöfnunum Aztlan Warriors, Black Elevation, Mindful Being og Resisters. Restin af síðunum voru allar með færri en tíu fylgjendur, en síðurnar höfðu samanlagt sett inn meira en 9.500 stöðuuppfærslur á Facebook og eytt samanlagt 11.000 dollurum í 150 auglýsingar á Facebook og Instagram.
Þeir sem stóðu að baki síðunum höfðu líka skipulagt viðburði á Facebook og allt að 4.700 manns höfðu lýst því yfir að mæta á einn slíkan.
Bandaríski þingmaðurinn Mark Warner, sem situr í upplýsingaöryggisnefnd þingsins fyrir hönd Demókrataflokksins, sagði í yfirlýsingu að það sem hefði komið fram í dag sýndi að stjórnvöld í Kreml héldu áfram að nota vettvanga á borð við Facebook til þess að ala á sundrungu og dreifa misvísandi upplýsingum.
Hann sagðist ánægður með aðgerðir Facebook í þessum málum og hann ætti von á því að Facebook og önnur sambærileg fyrirtæki héldu áfram að hafa uppi á „rússneskum net-tröllum“ og starfa með þinginu til þess að bæta lagaumgjörðina, með það að markmiði að bæta virkni lýðræðisins í framtíðinni.