Fyrirtækið Google fylgist með ferðum notenda sinna jafnvel þegar þeir hafa beðið um að slíkt verði ekki gert og óskað eftir því að staðsetningin sé falin. Rannsókn fréttastofu Associated Press leiddi þetta í ljós.
Þetta hefur áhrif á tvo milljarða sem nota Google í snjalltækjum sínum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er fólki almennt ekki nægilega ljóst hversu vel er fylgst með því.
Í yfirlýsingu Google vegna málsins segir fyrirtækið að skilmálar þess séu skýrir og það sé skýrt hvernig eigi að slökkva á stillingum er varða staðsetningu notenda.
Ekki er nóg að slökkva á stillingu í símanum sem sýnir ferðir hans (e. Location Service) heldur þarf að skrá sig inn á Google-reikning og slökkva á stillingu þar (e. Web and App Activity).
„Maður myndi halda að með því að segja Google að þú viljir ekki að það sýni staðsetningu þína með því að slökkva á þeim valmöguleika hætti forritið að skrásetja ferðir þínar,“ segir netöryggissérfræðingurinn Graham Cluley.