Næsti yfirmaður þinn verður ekki vélmenni

Andrea Carugati er prófessor í upplýsingatækni við Árósaháskóla. Hann sérhæfir …
Andrea Carugati er prófessor í upplýsingatækni við Árósaháskóla. Hann sérhæfir sig í gervigreind og telur Ísland mjög heppilegt hagkerfi fyrir slíkan iðnað. mbl.is/​Hari

Ísland er kjörlendi fyrir gervigreind. Hagkerfið er vel í stakk búið til að sigla þægilega inn í fjórðu iðnbyltinguna, það er, ef við höldum rétt á spöðunum. Ef yfirvöld koma upp hvatakerfi fyrir íslensk fyrirtæki til að fjárfesta í gervigreind, gæti það haft í för með sér fordæmalausan efnahagsblóma.

Á hvatningarorðum á þessa leið lauk Andrea Carugati, prófessor í stafrænni tækni við Árósaháskóla, fyrirlestri sínum í Háskólanum í Reykjavík í morgun, undir yfirskriftinni „Er næsti yfirmaður þinn vélmenni?“ Í erindinu drap hann á það helsta í umræðunni um gervigreind. Niðurstaðan var sú að þjóðfélagið er í þann mund að taka stakkaskiptum eina ferðina enn vegna tækniframfara og breytingarnar mun bera skjótar að en flesta hefði órað fyrir. 

Carugati varaði við tvenns konar misskilningi í sambandi við gervigreind. Annar þeirra er sá að þetta muni taka svo langan tíma að núlifandi menn þurfi varla að hafa áhyggjur af þessu. Hann svaraði þeirri röksemd með því að eftir 30 ár verði sennilegast komin tölva sem er greindari en Einstein var. Hinn misskilningurinn er sá að manneskjan hljóti að verða greindari samhliða því sem hún verður fær um að forrita svona greinda tækni. Sá hængur er þó þar á, að vinnsluminni tölva eykst með tímanum eftir veldisvísi en greind mannsins aðeins línulega. Vélmennin verða því ekki lengi að verða greindari en maðurinn.

Hægt að nota gervigreind í allt hugsanlegt og óhugsanlegt

Lagt var upp með að svara spurningunni um hvort næsti yfirmaður okkar verði vélmenni. Svarið var nei. Í leiðinni hrakti Carugati lífseigar ranghugmyndir um gervigreind í almennri umræðu og benti á að gervigreind hefði meira í för með sér en bara eitthvert vélmenni að afgreiða mann á hamborgarastað. 

Gervigreind mun teygja anga sína, og hefur raunar þegar, inn á öll svið atvinnulífsins. Sláandi dæmi um þetta er vélmennið sem hefur verið að störfum hjá Washington Post og hefur sannarlega dælt út fréttum. Þá er bandarískt réttarkerfi farið að nýta sér möguleika gervigreindar, stundum með hrikalegum afleiðingum.

Kemur ekki bara í staðinn fyrir verksmiðjustarfsmenn

Carugati lagði mikla áherslu á að gervigreindin myndi með tíð og tíma ekki aðeins breyta landslaginu í verkamannastörfum heldur engu síður í störfum sem byggja á þekkingu og skilningi. Tölvur geta þegar sinnt meirihluta skrifstofustarfa og eiga aðeins eftir að verða færari um það þegar fram líður.

„Sumir líta svo á að tölvan geti á endanum komið í staðinn fyrir flest starfsfólk flestra fyrirtækja,“ sagði Carugati. „Það sé bara tímaspursmál hvenær hver starfsstétt fyrir sig steypist fram af klettabrúninni sem gervigreindin er. Ég er ekki svona svartsýnn: ég vil frekar líkja þessari þróun við notalega rennibraut í átt að auknum lífsgæðum frekar en að einhver sé að hrapa þverhnípi. Það þarf bara að leyfa sér að renna rólega niður.“

Þá verði að gera greinarmun á stöku verki og heilu starfi. Vélmenni geta sinnt einstaka verkum, eins og að moka flór, en vélmenni mun ekki geta tekið að sér heilt starf, eins og að vera bóndi. Þannig verða verk frekar vélvædd sem eru einföld, fyrirsjáanleg, hættuleg, dýr og skítug en síður þau sem krefjast alhliða þekkingar og gagnrýninnar hugsunar.

Fyrirlesturinn í HR í morgun var vel sóttur. Yfirskriftin var …
Fyrirlesturinn í HR í morgun var vel sóttur. Yfirskriftin var „Er næsti yfirmaður þinn vélmenni?“ Svarið var nei, en það er aldrei að vita með þarnæsta. mbl.is/​Hari

Reginmunur á gervigreind og öðrum verkfærum

Gervigreind er skilgreint hugtak í tölvuvísindum sem er notað yfir tækni sem les úr gögnum, lærir þannig af reynslunni, dregur eigin ályktanir og hegðar sér út frá niðurstöðum sem hún dregur sjálf. Munurinn á gervigreindartækni og eðlilegu verkfæri í hefðbundnum skilningi er mikill.

Carugati tók dæmi um ljósrofa inni í herbergi. Ef rofinn er eins og flestir þekkja, hefðbundinn, þá slekkur maður og kveikir ljósið eftir þörfum. Ef hann er hins vegar gervigreindur, fer hegðun hans að byggja á flóknum útreikningum, hann verður ófyrirsjáanlegri og getur tekið fram fyrir hendurnar á manninum.

„Venjuleg verkfæri eru viljalaus tól mannsins til sinna þörfum hans. Gervigreind er ekki eins hlutlaus. Hún byggir á gögnum sem hún hefur og getur því farið að taka meira mið af þeim en sá sem skapaði hana lagði upp með,“ sagði Carugati.

Mannkynið ekki að stofna sjálfu sér í hættu

Oft leiðist umræða um framtíð gervigreindar út í dómsdagsspár. Fólk óttast að vélmennin verði greindari en maðurinn sjálfur. Carugati sló á þessar áhyggjur og sagði að fólk í atvinnulífinu verði að taka gervigreindinni opnum örmum, því hún sé augljóslega það sem koma skal.

Carugati var bjartsýnn um getu gervigreindar og lagði áherslu á að fólk hafi réttlátt viðhorf gagnvart framförum í þessum efnum. Vélmennin séu ekki að fara að taka af okkur störfin, heldur aðeins auðvelda þau. En bara ef við erum tilbúin að vinna með þeim.

Gervigreind pólitísk eins og allt annað

Carugati lauk fyrirlestrinum með því að brýna fyrir Íslendingum að byggja hér upp vísi að gervigreindariðnað. Meginatvinnuvegi Íslendinga sagði Carugati fæsta vera í útrýmingarhættu vegna gervigreindar. Hér væri því frjór jarðvegur fyrir gervigreindarstarfsemi og andrúmsloftið gæfi sennilega svigrúm til slíkra tilrauna, enda færri hræddir um störfin sín hér en í öðrum löndum.

Hann benti á að boltinn væri hjá yfirvöldum að mörgu leyti. Þau þurfi að hvetja til starfsemi af þessum toga og gætu í því skyni veitt styrki til þeirra fyrirtækja sem vilja prófa sig áfram í gervigreindarvæðingu. Gervigreind er að þróast á ógnarhraða í öðrum heimsálfum og þar sem þessi tækni virðist komin til að vera, er lykilatriði fyrir smáþjóð í Evrópu að vera sjálfbær að einhverju leyti í þessum efnum.

Carugati veigraði sér við að svara áleitnum spurningum sem vakna óumflýjanlega í þessari umræðu. Mun mannkynið á endanum geta hallað sér aftur og látið vélarnar sjá um að vinna? Og er tilgangur mannsins sá að vinna myrkranna á milli og til hvers? Hann benti réttilega á í þessu samhengi að ef við Íslendingar viljum hafa eitthvað að segja um svörin við þessum spurningum þegar kemur að gervigreind, er eins gott fyrir okkur að kunna sjálf að nota tæknina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert