Ísland geti kennt umheiminum ýmislegt

Yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi segir að Ísland geti kennt …
Yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi segir að Ísland geti kennt umheiminum ýmislegt í ljósi reynslu sinnar af endurnýjanlegum orkugjöfum. mbl.is/RAX

„Parísarsamkomulagið er bráðnauðsynlegt skref á leiðinni til sjálfbærari framtíðar. Það gæti hraðað þeim efnahagslegu og samfélagslegu umbreytingum sem eru nauðsynlegar til að tryggja framtíð plánetunnar okkar,“ sagði Michael Mann, yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi, á opnum fundi um Parísarsamkomulagið sem fram fór í Háskóla Íslands í dag.

Í desember verða liðin tvö ár frá því að Parísarsamkomulagið, sáttmáli um loftslagsmál, var undirritað. Í dag eiga 194 ríki, auk Evrópusambandsins, aðild að samningnum. Á fundinum í dag var farið yfir þann árangur sem hefur náðst frá því að samningurinn var undirritaður og hvað þarf að gera til að ná markmiðum hans. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók einnig til máls á fundinum. „Staðan núna er sú að Ísland og Noregur eiga í viðræðum við Evrópusambandið um hlutdeild landanna í heildarsamdrætti á þessu svæði. Það verður væntanlega komin niðurstaða á næsta ári,“ sagði ráðherra. Heildarsamdrátturinn miðast við reglur sem ESB hefur þegar sett sem gera löndum þess kleift að ganga lengra en markmiðið um að draga úr gróðurhúsalofttegundum um 40% miðað við útblástur árið 1990.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðmundur segir að stór þáttur í að ná árangri í loftslagsmálum felist í að geta umbylt orkukerfinu í samgöngum „Við þurfum að fara úr þessu innflutta mengandi eldsneyti yfir í innlenda endurnýjanlegu orku, ekki ósvipað og við gerðum í hitaveituvæðingunni. Það er svo skýrt fordæmi.“

Minni losun þarf ekki að koma niður á efnahag

Mann sagði að Evrópusambandið standi við fyrirheit sín og muni leiða baráttuna gegn loftslagsbreytingum á heimsvísu. Tíminn sé hins vegar naumur.

Michael Mann, yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi.
Michael Mann, yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

„Með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 23% um leið og hagvöxtur jókst um 53%, á árunum 1990-2016, hefur ESB sýnt fram á að það er hægt að draga úr losun án þess að það komi niður á efnahag landa,“ sagði Mann á fundinum í dag. 

Fundur um vinnuáætlun Parísarsamkomulagsins fer fram í Póllandi í desember. Þar verður kveðið á um hvernig Parísarsamkomulaginu verður framfylgt. „Afar brýnt er að þar náist góð samstaða,“ sagði Mann. Guðmundur Ingi mun sitja fundinn, að minnsta kosti að hluta, fyrir Íslands hönd. 

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrirtaksframtak

Mann sagði Ísland deila markmiðum ESB í loftslagsmálum og segir hann nýja aðgerðaáætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar í lofts­lags­mál­um, sem kynnt var í september, vera fyrirtaksframtak, en í áætluninni er meðal annars stefnt að því að gera Ísland að kolefnislausu hagkerfi fyrir 2040.

„Vegna reynslu sinnar af endurnýjanlegum orkugjöfum getur Ísland kennt umheiminum ýmislegt. Við hlökkum til náinnar samvinnu með Íslandi, við að takast á við þessa risavöxnu áskorun vorra tíma,“ sagði Mann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert