Ekki er þörf á sérlöggjöf um vindorkuframleiðslu hér á landi. Þetta er niðurstaða starfshóps um regluverk vegna vindorkuvera sem hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu um málið.
Fram kemur einnig í niðurstöðu starfshópsins að tilefni sé til tiltekinna breytinga á lögum og reglum.
Skýrsla hópsins felur í sér greiningu á því hvort í lögum og reglugerðum á sviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sé fjallað með nægjanlegum hætti um starfsemi vindorkuvera og framkvæmdir vegna þeirra. Greiningin náði einnig til löggjafar á málefnasviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hvað varðar leyfisútgáfu og eftirlit, að því er kemur fram í tilkynningu.
Í skýrslunni er bent á að vindorkustarfsemi sé nýtt viðfangsefni hér á landi og að þörf sé á aukinni þekkingu þeirra sem koma að slíkum málum hvort sem um er að ræða ríki, sveitarfélög eða einkaaðila
Skipulagslöggjöf og löggjöf um mat á umhverfisáhrifum taki á slíkum framkvæmdum og starfsemi auk þess sem skylt sé að taka mið af annarri viðeigandi löggjöf vegna ýmiss konar áhrifa á umhverfið af slíkum framkvæmdum, svo sem á landslag, ferðaþjónustu, dýralíf, hljóðvist o.fl.
Starfsemi og framkvæmdir vegna vindorkuvera er háð leyfum og eftirliti af hálfu hins opinbera eins og gildir um annars konar virkjanir.
Í skýrslu starfshópsins er bent á að verkefni stjórnvalda í Landsskipulagsstefnu 2015-2026, sem felst í því að fræða og miðla upplýsingum um skipulagsmál og umhverfismat vindorkunýtingar, muni nýtast sveitarfélögum vel við stefnumótunarvinnu tengdri skipulagsgerð. Hið sama eigi við um vinnu Skipulagsstofnunar við endurskoðun Landsskipulagsstefnu 2015-2026 þar sem eitt af áherslumálum ráðherra er stefna um skipulag vindorku með tilliti til landslags og að sett verði viðmið um slíka nýtingu, að því er segir í tilkynningunni.
Starfshópurinn leggur áherslu á að leiðbeiningar Skipulagsstofnunar um vindorkunýtingu verði gefnar út sem fyrst og að stofnunin skoði það samhliða með öðrum stofnunum hvort þörf verði á setningu reglna um fjarlægðarmörk milli vindmylla og annarra mannvirkja eða byggðar, m.a. með tilliti til hávaða af vindmyllum, skuggavarps og öryggisþátta.