„Plastmengunin er stórt alþjóðlegt vandamál“

„Þarna var dregin upp raunsæ mynd af því að plastmengunin er stórt alþjóðlegt vandamál,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, eftir að hafa tekið þátt í  pallborðsumræðum um plast, samhliða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þar var meðal annars greint frá því að frá miðnætti og þar til umræður hófust um hádegi höfðu 705 milljónir plastflaskna verið keyptar í heiminum.

Hann ræddi í gær um mikilvægi þess að berjast gegn plastmengun í pallborðsumræðum sem haldnar voru samhliða loftslagsráðstefnunni, sem stendur yfir í Katowice í Póllandi. 

„Ég lagði áherslu á það að vandamálið er það stórt og útbreitt að alþjóðasamfélagið yrði að takast á við þetta, hvort sem það þýði að tekið yrði á plastvandamálum í alþjóðasamningi, sem nú þegar er til, eða að skoðað yrði að gera nýjan samning sérstaklega um plast,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ásamt Sigríði Auði Arnardóttur ráðuneytisstjóra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ásamt Sigríði Auði Arnardóttur ráðuneytisstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Að auki lagði hann áherslu á að aðgerðir þyrftu fyrst og fremst að snúa að því að draga úr plastmyndun og þá einkum á einnota plasti. Ágætt væri að hugsa þetta með eftirfarandi hætti: neita sér um notkun, minnka hana, endurnýta hluti og loks endurvinna (e. refuse, reduce, reuse and recycle). Þannig ætti hver og einn að spyrja sjálfan sig hvort hann geti neitað plasti en ef ekki þá hvort hann geti minnkað notkun á plasti, og svo framvegis.

„Mér fannst mjög jákvætt og uppbyggilegt að þeir ráðherrar sem voru með mér í pallborðsumræðunum er fólk sem vill virkilega takast á við þessi mál. Þetta er að verða stærra og stærra mál, bæði alþjóðlega og líka heima fyrir í hverju landi,“ segir Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert