„Það er ástæða til að vekja athygli á margítrekuðum alvarlegum brotum og lekum hjá Facebook,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Facebook hefur í fleiri ár veitt stærstu tæknifyrirtækjum heims aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum notenda samfélagsmiðilsins, þvert á það sem talsmenn Facebook hafa haldið fram.
Meðal þess sem kemur fram í skjölum sem New York Times hefur undir höndum vegna máls hafa Netflix og Spotify fengið aðgang að einkaskilaboðum notenda og getur Amazon séð alla vini skráðra notenda ásamt netföngum.
Helga segir að Persónuvernd hafi áður þurft að tjá sig um persónuverndarsjónarmið vegna Facebook. „Við gáfum út tilmæli á haustmánuðum þess efnis að grunnskólar, íþróttafélög og allir sem koma að starfi með ólögráða börnum á Íslandi noti ekki samfélagsmiðla. Um leið og þú notar samfélagsmiðil eins og Facebook þá missirðu stjórn á upplýsingunum,“ segir Helga.
Hún segir að skólar og aðrir hafi verið farnir að nýta samfélagsmiðla þar sem finna mátti alls konar upplýsingar um grunnskóla- eða leikskólabörn, jafnvel viðkvæmar heilsufarsupplýsingar. Fólk þurfi að hafa í huga að allt efni sem það setur inn á Facebook og aðra samfélagsmiðla er deilt með bandarísku stórfyrirtæki sem ítrekað hefur gerst sekt um alvarleg brot á persónuverndarlögum.
„Þú missir stjórn á öllu sem þú deilir á Facebook. Þú ert að deila öllu með stórfyrirtæki í Bandaríkjunum,“ segir Helga og bendir á að Facebook hafi til að mynda fengið 500 þúsund punda sekt í sumar vegna Cambrigde Analytica-skandalsins.
„Það er alveg ljóst að það er full ástæða til að hafa mikinn vara á öllu því sem fólk setur þarna inn. Sérstaklega fyrir Íslendinga vegna þess að níu af hverjum tíu fullorðnum á Íslandi virðist nota miðilinn.“