Kynlífstæki bannað á tæknisýningu

Rafstýrði titrarinn Ose sem hlotið hefur nýsköpunarverðlaun var bannaður á …
Rafstýrði titrarinn Ose sem hlotið hefur nýsköpunarverðlaun var bannaður á tæknisýningu og saka framleiðendur tækisins skipuleggjendur um að útiloka konur frá sýningunni.

Kynlífstæki sem ætlað er konum hefur verið bannað á CES-tæknisýningunni sem fer fram í Las Vegas þessa dagana.

Tækið sem um ræðir nefnist Ose og er rafstýrður titrari, það hlaut verðlaun frá skipuleggjanda sýningarinnar, Consumer Technology Associaton, en var fyrir slysni boðin þátttaka á tæknisýningunni, að sögn skipuleggjenda. „Varan passar ekki inn í vöruflokkana á sýningunni og hefði því ekki átt að öðlast þátttökurétt,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum sem biðjast jafnframt afsökunar.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem framleiðir kynlífstækið, Lora Haddock, sakar skipuleggjendur um mismunun eftir kyni  og í yfirlýsingu á heimasíðu fyrirtækisins vísar hún í nokkur dæmi um vörur sem höfða til kvenna sem voru í sama flokki og titrarinn sem fékk verðlaun og taka þátt á sýningunni. 

„Tvær rafstýrðar ryksugur, rafstýrt hjólabretti, fjögur leikföng og vélmenni sem nýtist í verslunarleiðöngrum - það lítur út fyrir að öllum áhugamálum kvenna sé sinnt, ekki satt?“ segir í tilkynningunni.

Þá segir Haddock að misræmi gæti hjá skipuleggjendum þar sem á sýningunni í fyrra hafi kynlífsvélmenni, ætlað körlum, verið kynnt og þá var einnig sérstakt sýndarveruleikaklámherbergi á sýningunni í fyrra.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert