Hlýnun sjávar 40% meiri en talið var

Gervihnattarmynd af jörðinni. Höf jarðar hlýna um 40% hraðar en …
Gervihnattarmynd af jörðinni. Höf jarðar hlýna um 40% hraðar en áður var talið. AFP

Vísindamenn vara nú við því að höf jarðar hlýni hraðar en áður var talið. Segja þau þessar niðurstöður alvarlegar vísbendingar um hlýnun jarðar, enda endi stærstur hluti hitans frá gróðurhúsalofttegundum í höfunum.

Í nýrri rannsókn sem birt var í vísindatímaritinu Science í dag kemur fram að höf jarðar hlýni 40% hraðar en loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna taldi fyrir fimm árum. Telja vísindamennirnir met varðandi hlýnun sjávar nú hafa verið slegin nokkur ár í röð.

„Árið 2018 mun verða hlýjasta árið frá upphafi í höfunum,“ hefur New York Times eftir Zeke Hausfather, sérfræðingi í orkukerfum hjá Berkley Earth og einum höfunda skýrslunnar. „Eins var árið 2017 það hlýjasta og 2016 var líka hlýjasta árið.“

Höggpúði fyrir loftslagsbreytingar

New York Times segir höfin hafa reynst mikilvægur höggpúði sem hægt hafi á áhrifum loftslagsbreytinga með því að draga í sig 93% af öllum þeim hita sem kemur frá gróðurhúsalofttegundum af mannavöldum.

Hækkandi hitastig sjávar hefur engu að síður þegar haft banvæn áhrif á vistkerfi sjávar, auk þess að hækka yfirborð sjávar og auka eyðileggingarmátt fellibylja.

Áhrif þessa munu síðan verða enn meiri eftir því sem hitastig sjávar hækkar. Álag á kóralrifin og lífríki þeirra mun aukast, en um fimmtungur kóralla hefur drepist á undanförnum þremur árum. Öflugum hitabeltisstormum með mikilli úrhellisrigningu mun fjölga og verða fellibylir á borð Harvey árið 2017 og Flórence árið 2018 tíðari. Flóðum við strandlengjur mun einnig fjölga.

Hluti Kóralrifsins mikla sem hefur fölnað vegna hækkandi hitastigs sjávar. …
Hluti Kóralrifsins mikla sem hefur fölnað vegna hækkandi hitastigs sjávar. Mynd úr safni. AFP

Höfin besti hitamælirinn

 „Höfin eru einn besti  hitamælirinn sem við höfum varðandi breytingar á jörðinni,“ sagði Hausfather og kvað þau vera einn mikilvægasta þátt loftslagsrannsókna vegna hlutverks þeirra í hlýnun jarðar.

New York Times segir lengi vel hafa reynst erfitt að mæla hlýnun sjávar af einhverri nákvæmni og þannig er fimm mismunandi útreikninga að finna í skýrslu sem loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna gaf út árið 2014. Allir fimm sýna hins vegar lægri tölur en nýju rannsóknirnar, en svokölluð Argo-mæling sem nýtt hefur verið undanfarin ár þykir gefa nákvæmari tölur en áður. Grein Hausfarther og samstarfsmanna hans byggir á þremur nýlegum rannsóknum á hlýnun sjávar sem allar eru samhljóða um að hlýnun sjávar sé hraðari en áður var talið.

Í skýrslu sem loftslagsnefndin sendi frá sér í fyrra er líka bent á að hættuástand af völdum loftslagsbreytinga kunni að skapast strax árið 2040.

Hausfather telur engu að síður að þó að útlitið sé svart muni aðgerðir gegn loftslagsmálum, líkt og þær sem gert er ráð fyrir í Parísarsamningnum, hjálpa. „Ég tel ástæðu til að telja að okkur takist að forðast verstu niðurstöðuna,“ sagði hann. „Jafnvel þó að við séum ekki á réttum stað fyrir þá útkomu sem við viljum fá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert