Vilja umbylta útsendingum frá íþróttum

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið OZ hefur undanfarin ár unnið að tæknilausn svo raunhæft sé að senda út beint frá íþróttaviðburðum þar sem byggt er á gervigreind og hægt verður að stýra útsendingunni hvaðan sem er úr heiminum af jafnvel bara einum starfsmanni.

Með þessu telja forsvarsmenn OZ að hægt verði að lækka mikið kostnað við útsendingar og halda úti útsendingum frá íþróttadeildum og viðburðum þótt áskriftafjöldinn sé aðeins brotabrot af því sem þarf í dag. Telja þeir að þetta muni gefa smærri íþróttagreinum möguleika á dreifingu sem aðeins stærstu íþróttagreinar heims hafa í dag.

Hefðbundinn streymismarkaður reyndist erfiður

Árið 2012 kynnti OZ nýja tækni varðandi streymi á sjónvarpsefni. Hugmyndin var þá að notendur gætu sjálfir stýrt sinni dagskrá, tekið upp efni og tekið hlé ef þeir vildu. Guðjón Már Guðjónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri OZ, segir að í ljós hafi komið að vegna þróunar á streymismarkaði og réttindamála hafi þetta reynst erfiður markaður og litlar tekjur hafi verið af t.d. OZ-appinu sem fyrirtækið hefur haldið úti frítt fyrir notendur hér á landi. Stendur til að loka því appi nú um næstu mánaðarmót.

Blaðamaður mbl.is settist niður með Guðjóni, Kára Steini Karlssyni fjármálastjóra og Stefáni Baxter, tæknistjóra fyrirtækisins, í Næpunni svokölluðu, húsnæði OZ við Miðstræti í miðbæ Reykjavíkur, og fékk að gægjast inn í hvað það er sem OZ hefur verið að þróa og hverju búast má við á komandi misserum.

Guðjón Már Guðjónsson, eigandi og framkvæmdastjóri OZ.
Guðjón Már Guðjónsson, eigandi og framkvæmdastjóri OZ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færðu sig yfir í íþróttir fyrir tveimur árum

Fyrir rúmlega tveimur árum tók fyrirtækið krappa beygju frá fyrri áformum og ákvað að snúa sér að nýjum markaði; framleiðslu á beinum útsendingum frá íþróttaviðburðum. Guðjón segir að í grunninn vilji fyrirtækið umbylta útsendingum frá íþróttum með því að einfalda framleiðsluna, útgáfu og aðgengi efnis. Líkir hann þessu við það sem Spotify hafi gert í tónlistariðnaðinum.

Þetta nýja útspil OZ skiptist í tvo hluta; framleiðslu og dreifingu, sem svo sameinast í að koma beinni útsendingu til neytandans.

Sama gervigreind og Tesla notar

Varðandi framleiðsluhlutann hefur OZ látið hanna og framleiða sérstakar 4k UHD-myndavélar sem stýrt er af róbótum. Verða þrjár slíkar myndavélar eða fleiri settar upp á hverjum leikvangi sem ætlunin er að geti tekið upp efni fyrir þessa nýju veitu. Myndavélunum verður svo stjórnað af útsendingarstjóra sem getur verið staðsettur hvar sem er í heiminum. Honum til aðstoðar notast kerfið svo við gervigreind til að greina hvað sé mikilvægt og áhugavert að gerast á vellinum hverju sinni.

Guðjón segir gervigreindina vera þá sömu og Tesla notar til að greina gangandi fólk í sjálfkeyrandi bifreiðum sínum. Þeir hafi hins vegar notað hana og þróað til að greina leikmenn í íþróttaleikjum og helstu einkenni viðkomandi íþrótta, t.d. innköst og vítaspyrnur í fótbolta.

Á dreifingarhliðinni notast OZ við app þar sem notendur sem hafa keypt áskrift að ákveðnum deildum geta nálgast efnið á hvaða stýrikerfi sem er. 

Myndavélarnar sem OZ setur upp á íþróttavöllunum eru í læstu …
Myndavélarnar sem OZ setur upp á íþróttavöllunum eru í læstu búri sem svo er opnað þegar útsendingar hefjast. Mynd/OZ

„Kakan er mjög stór“

Guðjón og Stefán segja að helsta ástæða þess að OZ hafi valið íþróttir sé tvíþætt. Í fyrsta lagi sé um risastóran markað að ræða. „Kakan er mjög stór,“ segir Guðjón og Stefán bætir við að aðeins lítill hluti íþróttagreina fái almenna dreifingu á sjónvarpsstöðvum sem enn séu aðaldreifingaaðili beinna útsendinga. Þá segja þeir að komið hafi í ljós að íþróttir séu það sem áhorfendur séu helst tilbúnir að greiða fyrir þegar kemur að því að kaupa staka þætti eða viðburði í gegnum streymi á netinu.

Með þetta bak við eyrað segir Guðjón að þeir hafi farið inn á markað þar sem varan byggir á tekjusöfnun, en ekki á auglýsingatekjum eins og á við um t.d. Youtube og fjölmarga samfélagsmiðla eða snjallsímaleiki.

Viðskiptamódelið gengur út á að semja við íþróttadeildir um sýningarrétt. OZ setur upp myndavélar og búnað fyrir eigin kostnað með hliðsjón af því hvað áætlað áhorf er. Fyrir vinsælli deildir eru því settar upp fleiri myndavélar sem bjóða þar með upp á fjölbreyttara sjónarhorn. OZ hannar svo app fyrir viðkomandi deild og greiða áhorfendur fyrir ársáskrift að hverri deild sem þeir vilja horfa á.

Sem dæmi hefur OZ þegar gert samninga við efstu deildina í sænska kvennafótboltanum og sýnt frá Copa Italia-bikarkeppninni. Þá var gerður samningur við álfusamband Norður- og Mið-Ameríku í fótbolta (CONCACAF) um útsendingar frá meistaradeild, bikarkeppni og álfukeppninni í kerfum OZ. Til viðbótar segir Guðjón að búið sé að loka nokkrum öðrum samningum við deildir víða um heim. Hins vegar sé ekki hægt að greina frá því fyrr en eftir nokkrar vikur.

100 áskrifendur gætu staðið undir útsendingu

Guðjón segir að fyrstu tekjurnar fari í að greiða fyrir uppsetningu tækjabúnaðar, en eftir það sé tekjum skipt eftir samkomulagi. Með þessu fyrirkomulagi segir hann að ekki sé til staðar áhætta fyrir deildirnar og því ætti að vera einföld ákvörðun fyrir þær að hefja samstarf.

Starfsemi OZ fer að mestu leyti fram í Næpunni, húsnæði …
Starfsemi OZ fer að mestu leyti fram í Næpunni, húsnæði við Miðstræti sem Guðjón keypti í lok síðustu aldar og hefur nú verið innréttað sem skrifstofa OZ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nefnir hann sem dæmi að fyrir lágmarksútsendingu frá fótboltaleik þurfi þrjár myndavélar. Segir hann að ef 100 áskrifendur séu að deildinni og greiði 1.000 krónur hver á mánuði borgi uppsetning á einum velli sig upp á tveimur árum. Fyrir heila deild með 10 liðum þurfi því aðeins 1.000 áskrifendur. Fyrir minni deildir eða íþróttir sem kalli á færri myndavélar sé kostnaðurinn minni og þar með þurfa áskrifendur að vera færri svo dæmið gangi upp.

Ætti að skila sér í lægra verði til notenda

Með þessari tækni segir Stefán að hægt verði að bjóða upp á ódýrari lausnir þegar komi að beinum útsendingum en áður. Með lægri framleiðslukostnaði segir hann að sýningar til áhorfenda ættu að skila sér með lægra verði auk þess sem fólk mun hafa mun meiri möguleika á að sjá þær útsendingar sem það hafi áhuga á.

Nefnir Stefán sem dæmi að hingað til hafi júdóaðdáendur fengið lítið fyrir sinn snúð hér á landi. Með þessari tækni gætu þeir hins vegar gerst áskrifendur bæði að erlendum mótaröðum og mögulega mótaröðum hér á landi. Ekki þyrfti marga þar á bak við til að útsendingarnar stæðu undir sér. Þá segir hann að nú þegar hafi þessi tækni tengt saman ólíklega markhópa. Þannig hafi komið í ljós að listdans á skautum frá Finnlandi njóti talsverðra vinsælda í Japan. „Raunveruleikinn með beinar útsendingar í dag er að þar eru almennt ekki sýndir nema vinsælustu leikirnir í allra vinsælustu íþróttunum. Við ætlum hins vegar að éta ísjakann neðan frá,“ segir Stefán og vísar þar til þess að fyrirtækið horfi fyrst og fremst til íþrótta og leikja sem séu ekki á toppnum á heimsvísu. 

Hafa fjárfest fyrir rúmlega 2 milljarða

Félagið hefur undanfarið sett mikla vinnu í þróun kerfisins, bæði hugbúnaðarins sem og tæknibúnaðarins við upptökuvélarnar. Segir Kári að síðustu 20 mánuðum hafi félagið fjárfest fyrir um 17-18 milljónir dala, eða 2-2,2 milljarða íslenskra króna, fyrst og fremst í tækni og þróun. Á sama tíma hefði félagið fengið um 300 milljónir króna í tekjur með sölu á áskriftum frá ýmsum deildum sem fyrirtækið byrjaði að sýna frá á síðasta ári.

Kári Steinn segir að fram undan hjá félaginu sé uppbygging sölu- og markaðsteyma erlendis, en nú þegar er félagið með söluskrifstofur í Bretlandi og Bandaríkjunum. Telur hann að þróunin muni þó áfram fara fram hér á landi. Þá er félagið nú í lokuðum fjárfestingafasa, en þeir segja að félagið þurfi líklega að fjármagna þróun og markaðsstarf til næstu þriggja ára áður en tekjur fari fram úr þróunarkostnaði.

OZ hefur undanfarin ár horft á streymismarkað og hefur nú …
OZ hefur undanfarin ár horft á streymismarkað og hefur nú einbeitt sér að framleiðslu og dreifingu á íþróttaviðburðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnandi Tencent og Jón von Tetzchner meðal fjárfesta

Helstu eigendur félagsins í dag eru auk Guðjóns þeir Jón von Tetzchner, stofnandi Opera Software, David Wallerstein, stjórnandi Tencent, ásamt stærri fjárfestingarsjóðum frá Chile, en Guðjón bjó í landinu í nokkur ár og kynntist á þeim tíma nokkrum stórum fjárfestum sem hafa sýnt þessu verkefni áhuga.

Síðustu 2-3 mánuði hefur OZ séð um útsendingu og dreifingu á yfir 100 leikjum og voru leikirnir nokkur hundruð allt árið. Stefán segir að stefnan fyrir þetta ár sé að sýna 20 falt fleiri leiki. Skráðir notendur í dag eru tæplega 200 þúsund, en þar af hafa 70 þúsund skráð sig á síðustu fjórum mánuðum og eru notendurnir frá samtals 100 löndum.

Guðjón segir að fyrirtækið hafi sett sérstaka áherslu á fótbolta undanfarið, en auk þess hefur verið horft til handbolta, körfubolta og íshokkí. Segir hann að auðveldast sé að halda utan um útsendingar þegar um hefðbundna íþróttavelli sé að ræða, en þó hafi þeir einnig prófað sig áfram með útsendingar frá skíðakeppnum.

Gátu valið á milli 17 lýsenda á sama leiknum

En það er ekki bara tæknilega hliðin við að taka upp leikina og dreifa þeim sem OZ hefur verið að horfa til. Guðjón segir að með þessum vettvangi vilji þeir auðvelda deildum og íþróttafélögum sjálfum að ná til stuðningsmanna sinna. Þannig getur hver og einn sett upp lýsingu frá hverjum leik og sér Guðjón fyrir sér að deildirnar eða jafnvel íþróttafélögin sjálf fari að sjá um slíkar lýsingar. Gæti áherslan þar verið mjög ólík og áhorfendur valið hvaða lýsendur þeir vilja hlusta á. Nefnir hann sem dæmi að frá Copa Italia-keppninni hafi í eitt skipti verið 17 mismunandi lýsendur sem hægt var að velja á milli. Einn þeirra hafi t.d. verið með mikla áherslu á fjármálahlið fótboltans á meðan annað dúó hafi verið eins konar ítalska útgáfa Tvíhöfða og gert út á grín. „Þetta gjörbreytir útsendingum,“ segir Guðjón.

Pollamótið verði eins og útsending frá enska boltanum

Þá verður hægt að gæða útsendingarnar meira lífi og segir Stefán að hægt sé að láta utandeildarviðburði líta út eins og stórleiki í Evrópu. Þannig notist þeir við tækni frá Nvidia til að fylla áhorfendastúkur og sé því hægt að ýta stemmningu upp í það sem gerist best í efstu deildum. Guðjón segir markmiðið að geta látið Pollamótið líta út eins og útsendingu frá enska boltanum. Sjá má dæmi um þetta í myndskeiðinu sem fylgir með fréttinni.

Leyfismál í íþróttum hafa lengi verið mikið völundarhús og þegar blaðamaður spyr hvort það sé ekki svo enn þá þegar komi að því að troða sér inn á íþróttamarkaðinn viðurkennir Guðjón að svo sé. Markaðurinn sé þó í umbreytingu og byrjað sé að semja um alþjóðadreifingu með einum samningi þar sem áður fyrr voru gerðir svæðisbundnir samningar sem gerði dreifingu á netinu mun erfiðari. Guðjón segir sjónvarpið enn vera fyrsta val þar sem stóru samningarnir eru gerðir og vísar til HM í fótbolta og Ólympíuleikanna. „En Spotify og Netflix hafa verið leiðarvísar um framhaldið. Það er mikið að breytast,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert