Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið töluverðan fjölda tilkynninga um ýmiskonar netglæpi að undanförnu. Meðal annars um svindlara sem segjast í pósti hafa komist yfir lykilorð viðkomandi. Að þeir hafi yfirtekið tölvu viðkomandi og náð myndefni af brotaþola þar sem hann/hún sé að skoða klámsíður.
Ef greiðsla berist ekki innan tiltekins tíma og með bitcoin eða annarri rafmynt þá verði þessu myndefni af brotaþola dreift.
Lögreglan biður fólk að halda ró sinni fái það slíkan póst. Glæpamennirnir hafa ekki tekið yfir tölvu viðkomandi né hafa þeir yfir neinu skaðlegu myndefni að ráða. Lykilorðið er þó líkast til rétt. Það gerist af og til að tölvuþrjótar brjótast inn á síður á netinu og fá þá notendalista ásamt lykilorðum. Þessar upplýsingar eru síðan nýttar í slíkum pósti til að skapa hræðslu og óhug í þeirri von svindlaranna að fólk bregðist hrætt við og sendi peninga. Það getur verið mjög óþægilegt að fá slíkan póst og valdið uppnámi hjá fólki, enda er pósturinn sniðinn að því að hafa þau hughrif.
Fólki er bent á að síðan https://haveibeenpwned.com/ birtir upplýsingar um gagnaleka þar sem fólk getur skoðað hvort eitthvað tengist netfangi þeirra.
Ef þið fáið tölvupóst með netsvindli megið þið endilega senda hann á okkur á cybercrime@lrh.is það gefur okkur færi á að fylgjast með því sem er í gangi og bregðast við því fljótt og vel, segir á facebooksíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.