Breyta þarf hagkerfum heimsins

Rannsókn á hafsbotni undan ströndum eyríkisins Bermúda. djúpt í hafinu …
Rannsókn á hafsbotni undan ströndum eyríkisins Bermúda. djúpt í hafinu hafa fundist plastagnir. AFP

Samningur um aðgerðir til að draga úr plastmengun er þungamiðja umræðna á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Kenía. Plast er gríðarlegur mengunarvaldur, er lengi að brotna niður, og hefur þegar haft mikil áhrif á fæðukeðjuna í hafinu.

Þúsundir fullrúa margra þjóða, leiðtogar úr viðskiptalífinu og fólk sem berst fyrir náttúruvernd eru samankomnir í höfuðborginni Naíróbí en þingið er einn mikilvægasti vettvangur fyrir umhverfismál í heiminum. 

Sameinuðu þjóðirnar vilja að hvert og eitt land skrifi undir og heiti því þar með að draga verulega úr framleiðslu á plasti sem og að banna notkun einnota plasts í skrefum til ársins 2030. Samningurinn er í anda Parísarsáttmálans þar sem þjóðir sammæltust um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í vikunni er von á skýrslu um umfang plastmengunar og áhrifa hennar á vistkerfi í nútíð og framtíð. 

Plastmengun í höfunum hefur þegar haft áhrif á viðkvæmt lífríki …
Plastmengun í höfunum hefur þegar haft áhrif á viðkvæmt lífríki þeirra. Hér má sjá mann ganga um plastmengaða strönd í Indónesíu. Neyslan er þó mun meiri í hinum vestræna heimi en í fátækari löndum á borð við Indónesíu. AFP

Á hverju ári eru framleidd yfir 300 milljón tonn af plasti og í hafinu fljóta nú að minnsta kosti fimm billjón (milljón milljónir) plasthluta, að mati vísindamanna.

Plastagnir, svonefnt örplast, hefur fundist í djúpálum hafsins og á tindum hæstu fjalla jarðar. Enn heldur plastnotkun áfram að aukast ár frá ári. 

„Plast er mjög gott efni, það endist lengi, er sveigjanlegt og létt,“ segir Siim Kiisler, forseti umhverfisþingsins og fyrrverandi umhverfisráðherra Eistlands. „Þetta þýðir að við ættum að nýta okkur það sem best eins lengi og við mögulega getum í stað þess að henda því.“

Þingið í Naíróbí er haldið í kjölfar útgáfu margra skýrslna Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál af ýmsu tagi. Rauði þráðurinn í þeim öllum er sá að ef ekkert verði að gert verði gríðarlegar og jafnvel óafturkræfar skemmdir unnar á jörðinni. Helsta skýringin er óhófleg neysla.

„Þessir hlutir tengjast allir: Loftslag, umhverfið og úrgangur,“ sagði einn ráðstefnugesta í samtali við AFP-fréttastofunnar.

Á einni málstofu umhverfisþingsins kom fram að kostnaðurinn sem hlotist hefur af eyðileggingu vistkerfa vegna landbúnaðar, skógareyðingar og mengunar frá árinu 1995, væri um 20 billjónir dollara (20 milljón milljónir).

Einnota plast veldur mikilli mengun. Gríðarlegt magn af plastflöskum fellur …
Einnota plast veldur mikilli mengun. Gríðarlegt magn af plastflöskum fellur til í heiminum á hverri mínútu. Að draga úr neyslu á vörum í einnnota umbúðum er helsta leiðin til að draga úr plastmengun. AFP

Starfandi yfirmaður umhverfismála hjá Sameinuðu þjóðunum, Joyce Msuya, segir að heimurinn verði að skipta um stefnu og breyta því hvernig hagkerfi heimsins virka, „rjúfa hlekkinn milli [hag]vaxtar og aukinnar auðlindanotkunar og binda endi á sóunarmenningu okkar“.

Umhverfisþingið er haldið undir slagorðinu Ein pláneta. Á fimmtudag munu mæta til þess nokkrir þjóðarleiðtogar, m.a. Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Uhuru Kenyatta, forseti Kenía.

Kiisler segir að einmitt núna sé gríðarlega mikilvægt að bregðast við til að vernda jörðina og vinda ofan af þeim skemmdum og eyðileggingu sem þegar hefur átt sér stað. „Við erum ekki að vinna nógu hratt. Núna erum við að tala um sendinefndir en ég held að í framtíðinni verði við að koma á einhverjum alþjóðalögum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka