Baráttan um 5G-farsímakerfið harðnar

Baráttan um 5G-farsímakerfið er hafin fyrir alvöru. Mynd frá farsímaráðstefnu …
Baráttan um 5G-farsímakerfið er hafin fyrir alvöru. Mynd frá farsímaráðstefnu í Barcelona. AFP

Símafyrirtæki á heimsvísu þurfa að uppfæra kerfi sín með 5G-búnaði frá fyrirtækjum á borð við Huawei í Kína, Nokia í Finnlandi og Ericsson í Svíþjóð. Símaframleiðendur þurfa sömuleiðis að framleiða síma sem geta tengst þessum kerfum. Þessi tæknibylting mun hefjast fyrir alvöru á þessu ári en áhyggjum hefur verið lýst af kínverska tæknifyrirtækinu Huawei.

Ástralía, Bandaríkin og Nýja-Sjáland hafa öll ákveðið að setja lög til að koma í veg fyrir að farsímakerfi frá Huawei verði sett þar upp. Óttast ríkin þrjú að kínversk stjórnvöld geti njósnað um samskiptin þar með bakdyraleiðum. Þýskaland ákvað hins vegar í gær að útiloka ekki Huawei við útboð á 5G tíðnum þar í landi. Bandarísk stjórnvöld hafa á síðustu dögum varað þýsk stjórnvöld við því að verði Huawei leyft að taka þátt í 5G-væðingu Þýskalands þá deili bandarískar leyniþjónustur síður leynilegum upplýsingum með þýskum kollegum sínum. Breska ríkisútvarpið, BBC, segir að bandaríski sendiherrann í Þýskalandi hafi sent þýskum ráðamönnum bréf þessa efnis. Að sögn blaðsins Financial Times hafa bandarísk yfirvöld einnig þrýst á Breta að fara ekki í viðskipti við Huawei.

Angela Merkel Þýskalandskanslari segir í samtali við fréttastofuna AFP að ekki hafi komið til greina að útiloka Huawei en unnið sé að því að herða fjarskiptalög í Þýskalandi. „Hingað til hafa mörg lönd notast við tækni frá Huawei,“ sagði Merkel á ráðstefnu í Berlín í gær. „Þess vegna hefur ríkið ekki haft þá nálgun að útiloka neinn framleiðanda en við þurfum að setja reglur fyrir þá sem bjóða í 5G-farsímatíðni.“

Danir í viðskipti við Svía

Á mánudag birtist frétt á vef danska ríkisútvarpsins um að farsímafyrirtækið TDC (áður Tele Danmark Communications) hefði ákveðið að fara í samstarf við Ericsson um 5G-farsímakerfi. Ákvörðun TDC kemur í kjölfar mikillar umræðu í Danmörku um öryggisógnina sem gæti stafað af Huawei. Varnamálaráðherra Danmerkur, Claus Hjorth Frederiksen, benti m.a. á að tengsl Huawei við kínversk stjórnvöld væru varhugaverð. Hann undirstrikaði þó að hann sæi enga ástæðu til að setja lög gegn Huawei.

Huawei stefndi fyrr í mánuðnum bandarískum yfirvöldum vegna lagasetningar þar í landi sem banna alríkisstofnunum að eiga viðskipti við Huawei. Í tilkynningu frá Huawei kemur fram að málið hafi verið höfðað fyrir héraðsdómi í Plano, Texas, en bandarísk yfirvöld bönnuðu fyrr á árinu ríkisstofnunum að kaupa búnað, þjónustu eða vinnu af Huawei. Jafnframt er bannað að eiga viðskipti við þriðja aðila sem er viðskiptavinur Huawei.

Umræðan ákaflega pólitísk

Fjarskiptafyrirtækið Nova samdi við Huawei og hefur tekið í notkun fyrsta 5G-sendinn á Íslandi. Fyrirtækið sótti um 5G-tilraunaleyfi hjá Póst- og fjarskiptastofnun og er sendirinn á þaki höfuðstöðva Nova við Lágmúla.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið sé meðvitað um umræðuna um Huawei. „Við fylgjumst mjög vel með umræðunni og leggjum gríðarlega áherslu á áreiðanleika og öryggi kerfa okkar. Við gerum reglulega áhættumat á kerfum okkar og uppfærum það mat m.t.t. umræðunnar. Enn þá hefur ekkert komið fram um óeðlilega eða óásættanlega veikleika og því miður virðist umræðan ákaflega pólitísk. Enn og aftur er öryggið í fyrirrúmi hjá Nova,“ segir Margrét.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka