Heimsmarkaðurinn er yfirfullur af plasti og um þessar mundir er lítil eftirspurn eftir plasti til endurvinnslu. Því er stærstur hluti plasts sem safnað er hér á landi sendur erlendis til orkuendurvinnslu, en forsenda þess að sorpmeðhöndlunaraðilar taki við plasti til endurvinnslu er úrvinnslugjald. Sorpa er eina íslenska fyrirtækið sem tekur við plasti öðru en umbúðaplasti til endurvinnslu, eftir því sem mbl.is kemst næst.
„Í augnablikinu fer allt okkar plast til orkuendurvinnslu. Við fengum frengir af því í haust, en fyrir þann tíma fór plastið í flokkunarferli hjá Stena Recycling í Svíþjóð, þaðan sem það er sent áfram til mismunandi aðila. Við höfum ekki nákvæmar upplýsingar um það hverju sinni en það er breytilegt og fer eftir markaðnum á hverjum tíma,“ segir Gyða S. Björnsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni og samfélagsábyrgð hjá Sorpu, í samtali við mbl.is.
Hjá Sorpu er bæði tekið á móti umbúðaplasti sem og öðru plasti og því komið í farveg, þrátt fyrir að aðeins umbúðaplast beri úrvinnslugjald, sem felst í greiðslu inndlytjenda og framleiðenda fyrir endurvinnslu eða förgun þeirra umbúða sem þeir setja á markað og byggir kerfið á því að innheimt gjald standi undir úrvinnslu umbúða.
„Það er dýrt að senda plast til endurvinnslu og kostnaður við að skila plasti öðru en umbúðaplasti er svipaður því að skila óflokkuðum úrgangi. Úrvinnslugjald er forsenda þess að það borgi sig að skila plasti til endurvinnslu og skýrir líklega af hverju fleiri taka ekki við öðru en umbúðaplasti,“ útskýrir Gyða. „Svo högum við okkar gjaldskrá eftir þeim kostnaði sem fylgir efninu sem við tökum við hverju sinni og gjaldskráin okkar er gagnsæ, hún endurspeglar kostnaðinn á bakvið meðhöndlunina.“
Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri Gámaþjónustunnar, tekur í svipaðan streng og Gyða er varðar mikilvægi úrvinnslugjaldsins. „Aðkoma Úrvinnslusjóðs hefur haft mjög jákvæð áhrif og söfnun á plasti væri mun minni hér á landi ef ekki væri fyrir þetta kerfi Úrvinnslusjóðs. Það er ástæða til að skoða hvort úrvinnslugjald eigi ekki að leggjast á fleiri tegundir af plasti, til dæmis leikföng og garðhúsgögn, til að auðvelda söfnun og endurvinnslu fleiri tegunda en nú er.“
Hún segir Gámaþjónustuna hafa gert tilraunir til þess að taka við plastvörum sem ekki beri úrvinnslugjald. Plasttegundir séu hins vegar mjög margar og vörur gjarnan settar saman úr fleiri en einni tegund. Ferlið sé því flókið og kostnaðarsamt og því hafi Gámaþjónustan ekki getað farið í reglubundna sérsöfnun á öðru plasti en umbúðaplasti.
„Það þarf að vera hagkvæmt fyrir viðskiptavini okkar að fara í sérsöfnun á efnum sem falla til hjá viðkomandi aðilum. Ef sérsöfnun er dýrari en aðrar leiðir eins og urðun, þá vantar hagrænan hvata. Ýmsar þjóðir hafa farið þá leið að setja álag á urðun úrgangs til að beina úrgangi frekar í aðrar leiðir eins og endurvinnslu eða endurnýtingu,“ segir Líf.
Umbúðaplast sem safnað er hjá Gámaþjónustunni fer ýmist til Hollands eða Þýskalands þaðan sem það er síðan sent áfram til endurvinnslu. Að sögn Lífar er plastfilma eftirsótt til endurvinnslu og hefur afsetning hennar til endurvinnslu ekki verið vandamál undanfarin misseri. Af öðru plasti segir hún stóran hluta endurunninn. Hluti þess sé hins vegar ekki nothæfur til endurvinnslu, svo sem vegna óhreininda eða samsetningar umbúða. Það plast sé sent til orkuendurvinnslu í brennslustöð.
Bæði Gámaþjónustan og Sorpa hafa tekið við síauknu magni plasts undanfarin ár og eru Gyða og Líf sammála um að þar spili saman aukin neysla sem og aukin meðvitund fólks um mikilvægi flokkunar.
Gyða segir markaðinn yfirfullan af plasti eftir að Kínverjar lokuðu fyrir móttöku þess frá Evrópu og Bandaríkjunum. Evrópski markaðurinn sé hins vegar að bregðast við. Stena Recycling vinni til dæmis að því að auka getu sína til að taka meira magn. „Við vonumst til þess að í vor verði breyting á þeim farvegum sem okkar plast fer í.“
Líf tekur í svipaðan streng og segir markaðinn vissulega hafa verið erfiðan undanfarin ár en að nú sé kominn aukinn kraftur í starfsemi endurvinnsluaðila plastefnis í Evrópu. „Það skiptir miklu máli að hringrásarhagkerfi varðandi hönnun, framleiðslu og endurvinnslu sé virkt, það er að ekki sé sett á markað vara sem erfitt eða ómögulegt er að endurvinna.“
„Fyrirtæki eins og Gámaþjónustan þurfa sífellt að leita leiða til þess að vera í stakk búin að taka við plastefni og koma því frá sér á hagkvæmasta og umhverfisvænsta hátt sem í boði er. Það er því hagur Gámaþjónustunnar og viðskiptavina fyrirtækisins að sem allra mest af plastefnum sem berast sé af þeim gæðum að plastið sé hæft til endurvinnslu.“