Loftslagsneyðarástand ekki breytingar

„Það þarf að minna fólk á að loftslagsneyðarástand er ekki …
„Það þarf að minna fólk á að loftslagsneyðarástand er ekki lengur einhver framtíðarhætta, heldur þurfum við að takast á við það nú og þá skiptir hver dagur máli,“ segir ritstjóri Guardian. NASA

Breska dagblaðið Guardian greindi frá því í dag að blaðið hafi gert breytingar á þeim hugtökum sem notuð séu í umræðunni um þá vá sem vistkerfi jarðar standi nú frammi fyrir. Þannig mun Guardian ekki lengur tala um loftslagsbreytingar, heldur loftslagsneyðarástand,  hættuástand eða niðurbrot. Þá mun blaðið einnig tala um hitun jarðar í stað hlýnunar jarðar.

„Við viljum tryggja að við séum bæði vísindalega nákvæm og að við miðlum skýrt til lesenda upplýsingum um þennan mikilvæga málaflokk,“ sagði Katharine Viner ritstjóri Guardian. „Hugtakið loftslagsbreytingar hljómar til að mynda frekar hlutlaust og milt á sama tíma og vísindamenn eru að tala um meiriháttar hörmungar fyrir mannkynið.“

Sagði Viner vísindamenn sem sérhæfa sig í loftslagsmálum og stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar og bresku veðurstofuna vera að breyta hugtökum sínum og nota sterkara orðafar til að lýsa þeim aðstæðum sem mannkyn sé nú í.

Þannig hafi António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, talað um loftslagsneyðarástand í ræðu í september í fyrra. „Við stöndum frammi fyrir beinni útrýmingarógn,“ sagði Guterres. Þá hafa Benedikt páfi og Hans Joachim Schellnhuber, loftslagssérfræðingur og fyrrverandi ráðgjafi Angelu Merkel Þýskalandskanslara einnig talað um loftslagsneyðarástand.

Afneitun ekki sama og efi

Eins sagði prófessor Richard Betts, sem fer fyrir loftslagsrannsóknum bresku veðurstofunnar að hitun jarðar væri réttari lýsing á þeim breytingum sem ættu sér stað á loftslagi jarðar en hlýnun. Loks hafi breska þingið nýlega samþykkt að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála.

Önnur hugtök sem Guardian hefur uppfært er að framvegis verður talað um náttúrulíf í stað líffjölbreytileika, fiskifjölda í staðinn fyrir fiskistofna og þá verði ekki lengur talað um að draga loftslagsneyðarástandið í efa, heldur um að afneita því.

„Magn koltvísýring í andrúmslofti hefur hækkað svo gífurlega,“ segir Viner.  Hugtakabreytingin kemur í framhaldi af nýlegri breytingu á veðurkorti Guardian, sem nú inniheldur einnig magn koltvísýrings. „Það þarf að minna fólk á að loftslagsneyðarástand er ekki lengur einhver framtíðarhætta, heldur þurfum við að takast á við það nú og þá skiptir hver dagur máli,“ segir Viner.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert