Mun veðrið í Reykjavík minna á Belfast?

Belfast á Norður-Írlandi. Árið 2050 er veðurfar í Reykjavík talið …
Belfast á Norður-Írlandi. Árið 2050 er veðurfar í Reykjavík talið munu líkjast því sem í dag er í Belfast samkvæmt nýrri rannsókn. Wikipedia

Árið 2050 mun veðurfarið í London minna mest það veðurfar sem við í dag tengjum við Madrid á Spáni. Loftslagið í París mun minna mest á Canberra í Ástralíu, Stokkhólmur á Búdapest og Reykjavík á Belfast á Írlandi. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem kynnt var í dag og sem, Guardian segir byggja á bjartsýnum útreikningum.

Breytingarnar verða enn meira afgerandi í borgum á borð við Kuala Lumpur, Jakarta og Singapore þar sem hitabeltisloftslag er í dag og segja vísindamennirnir íbúa þeirra borga munu upplifa áður óþekktar aðstæður, öfgakennt veðurfar og mikla þurrka.

Rannsóknin var unnin af vísindamönnum frá ETH í Zürich í Swiss og birt í vísindatímaritinu PLOS ONE, en vísindamennirnir útbjuggu m.a. gagnvirkt kort þar sem sjá má útreikningana fyrir fjölda borga.

Tvíburaturnarnir í Kuala Lumpur. Veðurfarsbreytingar í hitabeltisborgum á borð við …
Tvíburaturnarnir í Kuala Lumpur. Veðurfarsbreytingar í hitabeltisborgum á borð við afgerandi í borgum á borð við Kuala Lumpur, Jakarta og Singapore eru taldar verða meira afgerandi og munu íbúar þeirra upplifa áður óþekktar aðstæður, öfgakennt veðurfar og mikla þurrka. AFP

Niðurstöðurnar ógnvænleg lesning

Veðurfar í 520 helstu borgum heims er í rannsókninni skoðað með 19 breytum sem endurspegla breytileika hitastigs og úrkomu. Notað var viðtekið líkan sem er í bjartsýnna lagi og gerir ráð fyrir að útblástur koltvísýrings nái jafnvægi um miðja þessa öld með innleiðingu grænna reglugerða og að hlýnun jarðar verði því ekki nema 1,4 gráður.

Vísindamennirnir báru síðan saman líkingar með loftslag borga í dag og borga framtíðar og segir AFP þær niðurstöður vera ógnvænlega lesningu.  

Þannig mun veðurfar í borgum á norðurhveli jarðar árið 2050 minna mest á staði sem eru um 1.000 km nær miðbaug. Hitastig mun ekki hækka jafn mikið í borgunum sem eru nær miðbaugi, en þar mun verða meira um öfgar í þurrki og úrkomu.

Veðurfar í Stokkhólmi er talið að muni minna mest á …
Veðurfar í Stokkhólmi er talið að muni minna mest á Búdapest árið 2050. Wikipedia/David Gubler

Veruleg breyting í 77% borga

Heilt yfir munu 77% borga verða fyrir „verulegri breytingu“ varðandi veðurfar. Í 22% borga verður nýjunga í veðurfari vart og er þar átt við áður óþekktar aðstæður.

Í Evrópu verður veðurfar hlýrra bæði yfir sumar- og vetrarmánuði, en gert er ráð fyrir að meðalhlýnun um sumartímann í álfunni verði 3,5 gráður og 4,7 gráður að vetri til.

Þó að líkanið sem notað var við útreikningana sé ekki nýtt af nálinni er tilgangurinn með greininni að koma upplýsingunum þannig á framfæri að hvetja stjórnvöld ríkja heims til að bregðast við vandanum.

Eykur álag á raforkukerfi Norður-Evrópu

„Tilgangurinn með greininni er að veita öllum aukin skilning á hvað það er sem loftslagsváin felur í sér,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir aðalhöfundi greinarinnar, Jean-Francois Bastin.

Benti Bastin, sem er Belgi, á að í heimalandi sínu væri ekki víst að hitastig næði niður fyrir frostmark árið 2060, en þær veðuraðstæður eru nauðsynlegar eigi hveitikorn að þroskast.

Þá muni hækkandi hitastig auka álag á raforkukerfi ríkja Norður-Evrópu og með því mögulega skapa ákveðinn vítahring.

„Það eru nú orðin 30 ár frá því að flest okkar viðurkenndu að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru raunverulegar og enn í dag tekst okkur ekki en að bregðast við á heimsvísu,“ sagði Bastin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert