Hættulegar ofurbakteríur geta haldið sér á lífi í læknasloppum og öðrum verkfærum á sjúkrahúsum, jafnvel þótt þau séu sótthreinsuð. Þetta leiðir ný rannsókn við Háskólann í Plymouth í ljós, en greint er frá henni í breska blaðinu Telegraph.
Því hefur verið beint til sjúkrahúsa að endurskoða verkferla sína eftir að í ljós kom að svonefndur snældugerill er orðinn ónæmur fyrir hefðbundnum sótthreinsunum.
Talið er að um 1.600 dauðsföll í Bretlandi einu megi árlega rekja til snældugerilsins, sem ber heitið C. difficile á ensku. Gerillinn getur valdið niðurgangi, hita, örum hjartslætti, þarmasýkingu og nýrnabilun, og er hann talinn sérstaklega hættulegur eldra fólki.
Rannsakendur komu þremur tegundum snældugerilsins fyrir á einnota spítalasloppum úr frauðplasti. Sótthreinsuðu þeir sloppana í tíu mínútur með 1 prómills klórblöndu, eins og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda gera ráð fyrir.
Allar tegundir gerilsins komust lífs af úr sótthreinsuninni og fækkaði þeim ekkert.
Dr. Tina Joshi, sem fór fyrir rannsókninni, segir í samtali við Telegraph að snældugerillinn sé virkilega ógeðsleg ofurbaktería og mikilvægt sé að sjúkrahús komi í veg fyrir útbreiðslu hennar.
„Rannsóknin sýnir að þótt við teljum okkur hafa sótthreinsað hlut nægilega, þá er það ekki endilega nóg. 1 prómills klórlausn er einfaldlega ekki nóg því gerlar geta komist lífs af og fjölgað sér aftur eftir sótthreinsunina.“
Nauðsynlegt sé að auka magn klórs í sótthreinsilausnum, en einnig að breyta verklagi á sjúkrahúsum þannig að sloppar fari, til dæmis, ekki út fyrir afmarkað svæði þar sem rannsóknin hafi sýnt að gró snældugerils sé góð í að festa sig við yfirborð annarra hluta og geti þar með auðveldlega borist á milli og sýkt sjúklinga.
„Á tímum þar sem sýklar eru að verða ónæmir fyrir sýklalyfjum er áhyggjuefni að aðrir gerlar skuli verða ónæmir fyrir sæfiefni,“ segir hún, en sæfiefni (e. biocide) er efni sem ætlað er að deyða óæskilegar lífverur svo sem gerla.