Sniglarnir, bifhjólasamtök lýðveldisins, standa fyrir hringferð um landið ásamt Orku náttúrunnar. Sex rafmagnsbifhjól eru í þessum skrifuðu orðum á leið til landsins með Norrænu og koma þau að landi á Seyðisfirði á morgun. Þá verður lagt í hann og keyrt rangsælis um þjóðveginn.
Tvö til þrjú hjól keyra samtímis, en hin fylgja með í kerru sem dregin er áfram af Tesla Model X, flaggskipi rafbílaflotans. Stoppað verður á nokkrum stöðum á landinu, ekki síst til að hlaða hjólin í boði ON, en einnig til að sýna gripina.
Þannig verður föruneytið á Akureyri á laugardag og býður upp á kvartmílu klukkan 11 ef veður leyfir, auk þess sem hjólin verða sýnd við mótorhjólasafnið klukkan 14. Þá verður boðað til málþings við höfuðstöðvar Orkuveitunnar á mánudag þegar Sniglar renna þar í hlað. Hægt er að fylgjast með ferðalaginu á Facebook.
Steinmar Gunnarsson, formaður Snigla, mun keyra eitt hjól en auk hans stýrir Kristján Gíslason einu hjóli. Kristján er ekki ókunnur því að keyra í hringi því hann lauk í fyrra hringferð um heiminn á mótorhjóli.
Steinmar segir að hugmyndin hafi kviknað fyrir tveimur árum þegar hann rakst á mann að nafni Marcel Bulthuis á rafmagnshjólakynningu í Brussel. Þeir Steinmar hittust svo aftur í Þýskalandi í fyrra og hafði Steinmar áhuga á að fá hjól lánuð til að fara um landið. Úr varð að Marcel kemur til landsins ásamt konu sinni, Ingrid, og slást þau með í för.
Markmiðið með hringferðinni er, að sögn, að auka vitund almennings um möguleika á orkuskiptum í samgöngum. Orka náttúrunnar hefur komið upp hlöðum með hraðhleðslum hringinn í kringum landið og er því hægt að fara hringinn í kringum landið á rafbíl eða rafmagnsbifhjóli.
Aðspurður segir Steinmar að tankurinn taki um 12 kílówattstundir af raforku, og að á hraðhleðslustöð taki um 20 mínútur taki að fylla 85% af tanknum, en mælt er með að fylla að því marki. Drægni hjólanna er þá um 200 kílómetrar.