Djúpfalsað myndskeið flýgur víða

Bill Hader. Ég meina Tom Cruise. Samt Bill Hader.
Bill Hader. Ég meina Tom Cruise. Samt Bill Hader. Skjáskot úr myndskeiðinu

Nokkuð hefur verið fjallað um svokölluð djúpfölsuð myndskeið (e. deepfakes) síðustu misseri og mögulega hættu sem af þeim getur stafað. Fyrir rúmlega viku birtist eitt slíkt, sem sýnir hve ótrúlega raunveruleg slík myndskeið geta verið. Maður trúir vart sínum eigin augum.

Myndskeiðið sýnir bandaríska grínistann og eftirhermuna Bill Hader í viðtali hjá David Letterman árið 2008, þar sem hann hermdi eftir leikurunum Tom Cruise og Seth Rogen og ræddi kynni sín af þeim. Slóvenskur YouTube-notandi, Ctrl Shift Face, hefur hins vegar breytt myndskeiðinu á þann veg að þegar Hader hermir eftir þessum kunningjum sínum, breytist andlitið á honum í þeirra á afar sannfærandi hátt.

Sjá má myndskeiðið hér að neðan, en höfundur þess hefur gert fleiri slík myndskeið og birt á samfélagsmiðlarás sinni. Í samtali við breska miðilinn Guardian segist hann vera sjálflærður í djúpfölsunarfaginu, en hann starfar sem þrívíddarhönnuður í kvikmynda- og tölvuleikjaiðnaðinum og hefur því umtalsverða tækniþekkingu.


„Ég byrjaði að falsa sjálfan mig inn í þætti og kvikmyndir til þess að skemmta mér, vinum, fjölskyldunni, og prófa,“ sagði falsarinn í samtali við Guardian. Allt er þetta til gamans gert, segir hann.

Möguleg lýðræðisógn

Nokkuð hefur verið rætt um fölsuð myndskeið að undanförnu og í byrjun sumars skaut eitt upp kollinum af Nancy Pelosi, leiðtoga demókrata á Bandaríkjaþingi, þar sem hægt var á tali hennar, þannig að hún hálfdrafaði og talaði óskýrt. Það var þó ekki djúpfölsun eins og um er að ræða í myndskeiðinu hér að ofan.

Höfundur myndskeiðsins segir að hann hafi ekki miklar áhyggjur af því að djúpfalsanir sem þessar geti bjagað lýðræðið í heiminum, eins og talað hefur verið um, þar sem samfara því að djúpfalsarar verði betri í sínu fagi séu einnig miklir fjármunir settir í tækni til þess að ákvarða um hvort djúpfalsanir sé að ræða.

Segist hann hafa meiri áhyggjur af falsfréttum, rituðum, sem erfiðara sé að komast að hvort séu sannar eða falsaðar.

Í frétt Guardian er þó haft eftir YouTube-notandanum að hann vonist til þess að djúpfölsuðu myndskeiðin hans veki fólk til vitundar um möguleikana sem felast í þessari tækni.

„Fólk þarf að læra að vera gagnrýnna. Almenningur veit að myndir geta verið „fótósjoppaðar“ en hefur enga hugmynd um að hægt sé að gera þetta við myndskeið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert