Þegar Kvosin sekkur í sæ

Á myndinni sést særok við Borgarnes. Yfirborð sjávar hækkar mjög …
Á myndinni sést særok við Borgarnes. Yfirborð sjávar hækkar mjög nú um stundir og mun halda áfram að gera það næstu áratugi, einkum vegna hnattrænnar hlýnunar, meðal annars af mannavöldum. Ef Reykjavík fengi á sig krappa lægð í flóði gæti sjávarflóð haft verulegan skaða í för með sér. mbl.is/RAX

Sjórinn hækkar og landið sígur. Það er staðreynd: Kvosin mun sökkva ef það verður sjávarflóð, það er, ef marka má orð Sigríðar Kristjánsdóttur, dósents í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. 

„Seinustu 100 árin hefur sjórinn hækkað um 20 sentímetra. Það er gert ráð fyrir að hann hækki rúmlega um það sama næstu 100 ár og ef við gerum ráð fyrir að þær spár fari fram úr sér eins og þær hafa verið að gera á síðustu tímum, gæti þetta orðið 60-70 sentímetra hækkun að staðaldri,“ segir Sigríður. 

Sigríður Kristjánsdóttir skipulagsfræðingur
Sigríður Kristjánsdóttir skipulagsfræðingur Ljósmynd/Aðsend

Vegna hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum gengur ferlið hraðar fyrir sig, að sögn Sigríðar. Landshlutar þeir sem liggja ekki á eldfjallasvæðum síga, eins og Reykjavík, og á móti hækkar sjórinn.

Þegar sjávarlínan verður búin að hækka svona mikið og það kemur lægð í flóði, óveður sem ýfir upp sjóinn, þá er möguleiki á 4-5,8 metra flóði inn í borg. „Þá verður fyrsta hæðin á Alþingishúsinu farin á kaf, til dæmis,“ segir Sigríður. Það er álíka flóð og varð í Básendaflóði en þar varð sjávarflóð upp á 6,2 metra í krappri lægð.

Opna lækinn undir Tjarnargötunni

„Það sem hefur gerst einu sinni mun gerast aftur. Ef þetta myndi gerast færi sjórinn samt aftur þegar flóðinu lyki. Við þurfum líka að ræða breytta strandlínu almennt,“ segir Sigríður og það var einmitt það sem var gert á alþjóðlegu námskeiði í Landbúnaðarháskólanum í dag.

Þar voru niðurstöður hópavinnu nemenda kynntar, sem fólust í kynningu í hugsanlegum lausnum við þeim vanda sem Reykjavík stæði frammi fyrir vegna hækkandi sjávar. „Þar komu fram margar hugmyndir. Ein var að reisa varnarsvæði alveg frá Reykjanestá og norður á Akranes. Einnig var hugmynd að nota eyjarnar utan við Reykjavík til að brjóta öldurnar upp, og jafnvel tengja þær með einhvers konar varnarkerfi,“ segir Sigríður.

Á þessari mynd frá 2007 sést hvar lækurinn lá og …
Á þessari mynd frá 2007 sést hvar lækurinn lá og gæti legið aftur ef Lækjargata yrði rifin upp með rótum. Ein tillagan fólst í að dýpka lækinn og Tjörnina til að mæta hækkun sjávar og taka þannig við því vatni öllu. mbl.is/RAX

Önnur athyglisverð hugmynd sem kom fram á kynningunni var að opna lækinn undir Lækjargötu aftur, sem rennur frá Tjörninni og út í sjó, og dýpka hvort tveggja lækinn og Tjörnina. „Þannig gætu þessir staðir tekið við vatninu sem kann að koma til með hækkandi sjó. Svo þegar ekki væri flóð þá væri hægt að nota þetta sem útivistar- og göngusvæði, þannig að þetta væri í tvennum tilgangi gert,“ segir Sigríður.

Hóparnir fengu rúma viku til að undirbúa verkefnin sín og hugmyndirnar allar á hugmyndastigi. „Þú leysir þetta auðvitað ekki fullkomlega á svona stuttum tíma en það þarf að huga að þessu og þarna komu fræ að raunhæfum lausnum fram,“ segir Sigríður, sem fékk styrk hjá NOVA, samstarfi norrænna landbúnaðarháskóla. Til landsins komu prófessorar frá Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og Seattle í Bandaríkjunum en nemendurnir voru frá átta evrópskum háskólum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert