Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, rannsakar um þessar mundir ásakanir þess efnis að geimfari þeirra hafi framið glæp úti í geimi, en ekki er vitað til þess að glæpur hafi áður verið framinn utan lofthjúps jarðar.
Málið snýr að geimfaranum Anne McClain, sem sögð er hafa skoðað bankareikning fyrrverandi maka síns í óleyfi á meðan hún var stödd í Alþjóðageimstöðinni.
McClain viðurkennir að hafa skoðað bankareikninginn en neitar að hafa gert eitthvað rangt og segir lögmaður hennar að hún hafi einfaldlega viljað fylgjast með fjármálum þeirra, sem enn væru samtvinnuð, og vera viss um að til væri nægur peningur til að borga reikninga fæða og klæða son þeirra.
Summer Worden, fyrrverandi maka McClain, stóð ekki á sama þegar hún sá að farið hafði verið inn á reikning hennar og þegar hún kannaði málið nánar kom í ljós að tölvan sem notuð var til þess var í eigu Geimferðastofnunarinnar. Í kjölfarið gerði hún ríkisráði viðskiptamála Bandaríkjanna viðvart og er málið, fyrsti geimglæpurinn, nú til rannsóknar.
Kvörtunin vegna óheimillar notkunar bankareiknings úti í geimi er þó ekki fyrsta lagalega deiluefnið sem upp hefur komið vegna atvika tengdum geimnum: árið 2011 fór NASA í mál við ekkju fyrrverandi geimfara sem reyndi að selja tunglstein, árið 2013 varð rússneskur gervihnöttur fyrir skemmdum vegna árekstrar við brak úr gervihnetti sem Kína hafði eyðilagt í eldflaugatilraun og árið 2017 kærði ástralskur viðskiptamaður geimferðaskrifstofu til að endurheimta inngreiðslu sem hann hafði innt af hendi vegna geimferðar sem ekki varð úr.
Með auknum geimferðum og geimferðamannabransa má búast við að málum sem þessum muni fjölga umtalsvert á næstu árum og áratugum.