Fréttavefurinn mbl.is breytir um svip í dag og er þetta mesta útlitsbreyting á vefnum í rúman áratug. Árni Matthíasson, netstjóri mbl.is, segir að það hafi verið tímabært að laga vefinn að nýrri tækni og breyttri notkun.
„Á undanförnum árum hefur notkun farsíma aukist til muna og svo komið að meirihluti þeirra notenda sem skoða vefinn gerir það í farsíma eða spjaldtölvu og það hlutfall fer ört hækkandi. Við endurhönnun vefsins var tekið mið af því, en einnig lögð áhersla á að hann myndi koma betur út á stórum skjáum en eldri gerð hans, forsíðan breikkuð og myndir stækkaðar og letur stækkað.
Einnig var grunnkóði vefsins einfaldaður til að tæki séu fljótari að birta forsíðuna, stakar fréttir og undirsíður. Fréttum hefur verið fjölgað á forsíðunni en efnisskipan á vefnum er að mestu leyti óbreytt. mbl.is hefur verið vinsælasti innlendi vefurinn frá því hann fór í loftið fyrir rúmum tveimur áratugum, nær í dag til ríflega 80% þjóðarinnar, og það er sannfæring okkar að þessar breytingar séu til þess fallnar að styrkja vefinn enn í sessi.“