Áhugamönnum um Land Rover Defender stendur nú til boða að setja saman eitt stykki slíks bíls með vél og öllu tilheyrandi, en hann er úr legókubbum.
Vélræn nákvæmni hins samsetta bíls er sögð einstaklega tilkomumikil. Rétt eins og í Defender 90 er undir vélarhlífinni að finna sex strokka raðhreyfil. Er vélin tengd alvöru fjöðrun og fjögurra hjóla drifi. Skiptingin er þó aðeins fjögurra gíra sem skipta má öllum upp og niður. Rýmið í kubbabílnum býður ekki upp á stærri gírkassa.
Drifbúnaðurinn býður upp á fram-, mið- og aftur- mismunadrif, háa gíra og lága. Fjöðrunarbúnaður módelsins er tiltölulega nákvæm eftirlíking fjöðrunar hins raunverulega Defenders, með gormafjöðrun á hverju horni.
Stýrið virkar og því má stjórna með stýrishjólinu inni í bílnum eða hnappi á þakinu. Smáatriðunum eru gerð góð skil. Dyrnar opnast, einnig vélarhlífin og afturhleri, sem opnast út til hliðar eins og á alvörubílnum. Á hleranum er varahjól að finna.
Land Orver Defender módelið er væntanlegt í verslanir um næstu mánaðarmót og mun í Bandaríkjunum kosta 199,99 dollara. Búið ykkur undir tímafreka samsetningu því í kassanum er að finna hvorki fleiri né færri en 2.573 bita til að setja bílinn saman.