Hugmyndin Beljur í búð stóð uppi sem sigurvegari í Plastaþoni Umhverfisstofnunar og Plastlauss septembers sem fram fór nú um helgina.
Sjö teymi tóku þátt í Plastaþoninu og unnu að lausnum á plastvandanum, en ákaflega fjölbreyttur hópur fólks tók þátt í viðburðinum.
Beljur í búð byggist á hugmynd um að setja upp sjálfsafgreiðsluvélar fyrir mjólkurvörur í verslunum þannig að kaupandinn geti dælt vörunni sjálfur í fjölnota umbúðir. Fram kom í rökstuðningi dómnefndar að sú staðreynd að þessi aðferð gæti orðið að veruleika í náinni framtíð ætti stóran þátt í sigrinum.
Teymið samanstóð af tveimur listakonum, tveimur nemum úr Tækniskólanum, verkfræðingi frá Eflu og markaðsstjóra Krónunnar sem eru þær Dröfn Sveinsdóttir, Gríma Katrín Ólafsdóttir, Hafdís Bjarnadóttir, Móeiður Helgadóttir, Lára Kristín Þorvaldsdóttir og Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir.
Dómnefnd skipuðu þau Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, Einar Bárðarson, framkvæmdarstjóri Votlendissjóðs, og Sigríður Heimisdóttir, iðnhönnuður hjá IKEA.